*

laugardagur, 15. maí 2021
Erlent 14. júlí 2020 07:02

Musk ríkari en Buffett

Auðæfi Elon Musk eru metin á rúmlega 70 milljarða dollara sem er um 1 milljarði meira en auður Warren Buffett.

Ritstjórn
Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, er nýlega orðinn 49 ára gamall.
epa

Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, varð sjöundi ríkasti aðili heims í gær þegar hann tók fram úr fjárfestinum Warren Buffett. Ástæðuna má rekja til mikillar hækkunar hlutabréfa Tesla en þau náðu hæst tæpum 1.800 dollurum hvert í viðskiptum gærdagsins, en gáfu svo eftir og enduðu daginn í um 1.500 dollurum. Að auki gaf Buffett um þrjá milljarða dollara í góðgerðamál nú á dögunum. Bréf Tesla brutu 1.000 dollara múrinn 10. júní síðastliðinn.

Samkvæmt útreikningum Bloomberg eru auðæfi Musk nú metin á um 70,5 milljarða dollara eða um milljarði meira en auðæfi Buffett. Frá þessu greinir CNBC.

Efst á lista Bloomberg situr Jeff Bezos, stofnandi Amazon, sem er metinn á um 189 milljarða dollara. Auður hans hefur aukist um 74,5 milljarða það sem af er ári en hlutabréf Amazon hafa hækkað um 73% á þessu ári.

Næst efst er Bill Gates, stofnandi Microsoft, en auður hans er metinn á 116 milljarða dollara og í þriðja sæti situr Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook en auður hans er metinn á 93 milljarða.

Markaðsvirði Tesla er nú um 275 milljarðar dollurum, en það náði hæst um 330 milljörðum dollara í gær, og var þá 10. stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna en það var stofnað árið 2003.

Stikkorð: Jeff Bezos Tesla Buffett Musk