*

miðvikudagur, 23. október 2019
Erlent 27. ágúst 2019 19:15

Musk fær það óþvegið

Elon Musk sakaður um svik og sagður „fullur af skít“ í umfjöllun stjörnublaðamanns í Vanity Fair.

Ritstjórn
Efasemdir um heiðarleika og hegðun Elon Musk hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu.
epa

Aðgerðir til að bjarga dótturfyrirtæki Tesla, Solar City, úr vandræðum eru harðlega gagnrýndar í tímaritinu Vanity Fair og er Elon Musk m.a. sakaður um að hafa beitt blekkingum í málinu. Málsóknir á hendur Musk í tengslum við Solar City hrannast upp og meðal stefnanda er smásölurisinn Walmart, opinberar stofnanir og fyrrum starfsmenn félagsins. Meðal ákæruefna er meint fölsun á bókhaldsgögnum og vanræksla við uppsetningu sólarspegla.

Blaðamaðurinn Bethany McLean skrifar umrædda grein í Vanity Fair. McLean er best þekkt fyrir að lyfta hulunni af svikamyllu Enron árið 2001 og er jafnframt meðhöfundur bókarinnar Enron: The Smartest Guys in the Room og handritsins að samnefndri heimildamynd. 

Musk er í grein McLean m.a. sakaður um að hafa blekkt fjárfesta með því að gefa vitsvísandi upp rangar upplýsingar um bæði rekstur og fyrirætlanir Solar City. Alvarlegasta ásökunin snýr að 750 milljón dollar fjárframlagi New Yorks fylkis til Solar City vegna uppbyggingar á verksmiðju í borginni Buffalo. Uppbygging verksmiðjunnar er enn ekki hafinn þótt tvö ár séu liðin frá því að greiðslan var veitt. 

McLean ræðir við Dennis Scott fyrrum starfsmann Tesla, en Scott ræddi við Elon Musk í síma eftir að honum var sagt upp störfum hjá fyrirtækinu í fyrra. Í samtalinu við Musk gagnrýndi Scott m.a. framgang mála hjá fyrirtækinu Solar City. Spurður um viðbrögð Musk við gagnrýninni segir Scott að vissulega sé Musk viðkunnanlegur náungi en hann sé engu að síður „fullur af skít“ og ekkert að marka svör hans.