Elon Musk, forstjóri Tesla, hyggst gera yfirtökutilboð í Twitter sem verðmetur félagið á 43 milljarða dollara , um 5.500 milljarða króna. Boð Musk er um 18% yfir hlutabréfaverði félagsins við lokun markaða í gær en gengi bréfa félagsins hefur tekið stökk upp á eftirmarkaði eftir að tilkynnt var um tilboðið.

Boð Musk er á genginu 54,2 dollarar á hlut sem er 38% yfir hlutabréfaverði félagsins áður en tilkynnt var um að Musk væri stærsti einstaki hluthafinn í Twitter með 9,2% í byrjun apríl.

Til stóð að Musk tæki sæti í stjórn Twitter eftir að tilkynnt var um kaup hans á hlutum í félaginu en síðar var fallið frá þeim áformum. Fjöldi starfsmanna Twitter hafa líst yfir áhyggjum af aðkomu Musk að félaginu, þar á meðal er Haraldur Þorleifsson, sem seldi félagið Ueno til Twitter á síðasta ári og hefur síðan unnið fyrir Twitter.

Musk segir að um lokaboð sé að ræða til annarra hluthafa. Ef það verði ekki samþykkt muni hann þurfa að endurskoða afstöðu sína til fjárfestingar í félaginu. Twitter mun að sögn Musk ekki blómstra eða þjóna samfélagslegum tilgangi sínum í sinni núverandi mynd og afskrá þurfi félagið af hlutabréfamarkaði.