Deilur Elon Musk og Jeff Bezos virðast engan endi ætla að taka. Musk svaraði tísti frá Bezos í gær með emoji-mynd af silfurmedalíu merktri tölustafnum 2. Talið er að Musk hafi þar verið að minna Bezos á hvor þeirra vermir efsta sætið á auðmannalista Forbes. Samkvæmt honum er Musk ríkasti maður heims en auðæfi hans eru metin á 207 milljarða dala samanborið við áætlaðan 189 milljarða dala auð Bezos sem eitur í öðru sæti. WSJ greinir frá.

Í færslunni sem um ræðir rifjaði Bezos upp neikvæða umfjöllun um viðskiptamódel Amazon í grein Barron‘s frá árinu 1999. „Hlustið og verið opinská en ekki leyfa neinum að telja ykkur trú um hver þið eruð,“ skrifaði Bezos og bætti við að þrátt fyrir margar dómsdagsspár um Amazon þá sé fyrirtækið eitt það farsælasta í heiminum í dag.

Efsta sætið á Forbes listanum hefur flakkað á milli Musk og Bezos á síðustu mánuðum. Musk náði fyrst efsta sætinu í janúar síðastliðnum eftir að hlutabréfaverð rafbílaframleiðandans Tesla meira en sjöfaldaðist árið 2020.

Musk og Bezos hafa áður sent hvor öðrum pillur. Í júní 2020 tístaði Musk að nú væri kominn til að brjóta upp Amazon samstæðuna og að „einokun er óréttlát!“ Þá hefur Bezos grínast með áform Musk um að nýlenduvæða Mars.

Þeir hafa hvor um sig stofnað geimflaugafyrirtæki sem keppast meðal annars um samninga frá stofnunum á borð við NASA . Musk er stofnandi SpaceX og Bezos stofnaði Blue Origin en sá síðarnefndi var meðal farþega sem flaug með geimfari Blue Orgin að jaðri geims í júlí síðastliðnum.