Auður Elon Musk, stofnanda og forstjóra Tesla, er nú metinn á meira en auðæfi Bill Gates, stofnanda Microsoft og er Musk orðinn næst ríkasta manneskja heims á eftir Jeff Bezos, stofnanda Amazon. Einungis er vika síðan Musk varð ríkari en Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook.

Auðæfi Musk, sem nú er 49 ára gamall, eru nú metin á á um 128 milljarða Bandaríkjadollara, andvirði ríflega 17 þúsund milljarða króna og hefur aukist um meira en 100 milljarða dollara á þessu ári. Í janúar á þessu ári var Musk 35. ríkasta manneskja heims. Auður Bezos er metinn á um 181 milljarð dollara.

Auður Musk er beintengdur hlutabréfaverði í Tesla. Það sem af er ári hafa bréf Tesla tæplega sexfaldast og er fyrir löngu langverðmætasti bílaframleiðandi heims. Samkvæmt frétt Guardian um málið má rekja þrjá fjórðu af auð Musk til hlutabréfa í Tesla.

Gert er ráð fyrir að Tesla framleiði hátt upp í 500 þúsund bíla á þessu ári. Til samanburðar framleiðir Toyota um tíu milljón bíla árlega.

Listi Bloomberg nær yfir 500 ríkustu aðila heims. Það sem af er ári hefur samanlagður auður þeirra vænkast um 1.300 milljarða dollara.