Elon Musk, forstjóri Tesla, er orðinn þriðji ríkasti einstaklingur heims, a.m.k. um sinn. Musk hirti þriðja sæti listans af Facebook stofnandanum Mark Zuckerberg, eftir að hlutabréf Tesla héldu áfram að rjúka upp í verði eftir opnun markaða vestanhafs í dag. Bloomberg greinir frá.

Auðæfi Musks eru nú metin á 111,3 milljarða dollara en fyrrnefndur Zuckerberg er „aðeins" metinn á 110,5 milljarða dollara, samkvæmt lista Bloomberg yfir milljarðamæringa. Umræddur listi er uppfærður í lok hvers viðskiptadags.

Sjá einnig: Musk orðinn fjórði ríkasti maður heims

Musk hefur verið á miklu flugi upp listann og hefur virði eigna hans aukist um 76,1 milljarða dollara á þessu ári, en hlutabréfaverð Tesla hefur hækkað um ríflega 475% frá áramótum. Auk þess hefur launasamningur hans við stjórn Tesla hjálpað til við að skjóta honum upp listann, en umræddur samningur er talinn sá stærsti sem forstjóri og stjórn fyrirtækis hafa gert sín á milli í sögunni. Ef Musk nær markmiðum samningsins munu hvorki meira né minna en ríflega 50 milljarðar dollara skila sér í vasa forstjórans.

Þess ber þó að geta að Musk er enn ansi langt frá því að verða ríkasti einstaklingur heims en Jeff Bezos, forstjóri Amazon, er metinn á um 200 milljarða dollara.

Sjá einnig: Sundurleitar skoðanir á bréfum Tesla