Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, segir hlutabréfaverð rafbílaframleiðandans „of dýr“, í tísti rétt í þessu . Þegar tístið birtist fyrir um hálftíma síðan stóð verðið í 760 dölum á hlut, en hefur síðan fallið um 8% og stendur þegar þetta er skrifað í slétt 700 dölum.

Hlutabréfaverð Tesla hefur verið ansi líflegt – ef svo má að orði komast – síðustu misseri. Í febrúar fóru bréfin stuttlega yfir 900 dali eftir að hafa hafið árið í 418, og verið undir 200 síðasta sumar.

Eftir því sem áhrif kórónuveirunnar á framleiðslu Tesla og heimsbyggðina alla komu betur í ljós féllu bréfin svo aftur niður í um 360 dali um miðjan marsmánuð. Rafbílaframleiðandinn þurfti að stöðva framleiðslu í verksmiðju sinni í Fremont, Kaliforníu eftir nokkurn rugling um hvort stöðvunarskipun sýslumannsembættisins ætti við um Tesla. Stuttu seinna tóku bréfin þó að rísa á ný og skriðu yfir 800 við lokun markaða nú á miðvikudaginn.

Stormasamt samband við Twitter og yfirvöld
Yfirlýsingar Musk á Twitter hafa fallið í misjafnan jarðveg, en frægasta dæmi þess er líklega tíst hans frá því í ágúst 2018, þar sem hann sagðist vera að íhuga að afskrá félagið af markaði, og hafa tryggt til þess fjármagn.

Síðar kom í ljós að fjármagnið var ekki eins tryggt og Musk hafði látið í veðri vaka, og Musk endaði á að semja við verðbréfaeftirlitið (SEC) um sektargreiðslu og að stíga til hliðar sem stjórnarformaður félagsins.

Þá hefur Musk einnig lýst efasemdum sínum um alvarleika kórónufaraldursins ítrekað síðustu vikur og mánuði á Twitter, meðal annars með því að kalla viðbrögðin við honum heimskuleg.