Elon Musk, forstjóri Tesla, seldi hlutabréf í rafbílaframleiðandanum fyrir tæplega 4 milljarða dala, eða um 525 milljarða króna, eftir að hann náði samkomulagi við stjórn Twitter um kaup á samfélagsmiðlinum fyrir 44 milljarða dala.

Salan fór fram á þriðjudaginn og miðvikudaginn í vikunni en stjórn Twitter samþykkti kauptilboð Musk á mánudaginn síðasta. Musk þarf að reiða fram 21 milljarða dala í kaupunum en hann hafði auk þess tryggt sér 25,5 milljarða dala lánsfjármögnun, sem var að hluta með veði í hlut hans í Tesla.

Musk tilkynnti á Twitter fyrr í dag að ekki sé fyrirhuguð frekari sala á hlut í Tesla.

Hlutabréfaverð Tesla lækkaði talsvert á þriðjudaginn síðasta vegna áhyggna um að Musk þyrfti að selja hlutabréf í rafbílaframleiðandanum til að fjármagna yfirtökuna á Twitter.

Um er að ræða fyrstu sölu Musk frá því að hann seldi tæplega 16 milljarða dala hlut í rafbílaframleiðandanum á síðasta ári, til þess að standa straum af skattgreiðslu í kjölfar innlausnar hans á kaupréttum í Tesla. Hann hafði spurt fylgjendur sína á Twitter hvort hann ætti að selja 10% hlut í Tesla og meirihluti svarenda svaraði játandi.