Elon Musk, forstjóri Tesla, seldi hlutabréf í rafbílaframleiðandanum fyrir 6,9 milljarða dala eða sem nemur ríflega 950 milljörðum króna, í lok síðustu viku.

Áhyggjur hafa verið uppi á meðal hluthafa Tesla að Musk neyðist til að selja hlutabréf í bílaframleiðandanum til að fjármagna 44 milljarða dala kaupin á samfélagsmiðlinum Twitter. Musk hætti við yfirtökutilboð sitt í byrjun síðasta mánaðar og kvartaði sérstaklega yfir fjölda gervireikninga á miðlinum. Í kjölfarið höfðaði Twitter mál gegn Musk og fór fram á að viðskiptin gangi í gegn. Málið fer fyrir dómstóla í Delaware-fylki í byrjun október.

Um er að ræða fyrstu sölu Musk á hlut í Tesla frá 8,5 milljarða dala sölu hans í apríl, skömmu eftir að hann samþykkti að kaupa Twitter. Samkvæmt skilmálum kaupanna ber Musk að fjármagna sjálfur allt að 33,5 milljarða dala.

Musk tók til Twitter í morgun og sagði að hann stefni ekki á að selja frekari hlut í Tesla á næstunni. Hann bætti við að í því tilviki að Twitter nái að knýja viðskiptin fram ásamt því að aðrir fjárfestar falli frá kaupunum þá sé mikilvægt fyrir hann að koma í veg fyrir brunasölu á hlutabréfum Tesla. Musk svaraði einnig játandi, spurður hvort hann hygðist kaupa hlutabréf í Tesla aftur ef kaupin á Twitter ganga ekki í gegn.

Hlutabréfaverð Tesla hefur hækkað nokkuð síðustu vikurnar. Meðalgengi í viðskiptunum var 869 dalir á hlut en til samanburðar fór gengi Tesla niður í 620 dali í maí.