Auðjöfurinn Elon Musk mun taka sæti í stjórn samfélagsmiðilsins Twitter eftir að hann eignaðist nýlega 9,2% hlut í fyrirtækinu. Hlutabréfaverð Twitter hækkaði um meira en 6% við fregnirnar í morgun.

Musk er skipaður í stjórnina til tveggja ára eða til ársins 2024. Í tilkynningu til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna segir að Musk megi ekki eiga meira en 14,9% út skipunartímann.

„Eftir samtöl við Elon síðustu vikurnar varð okkur ljóst að hann myndi koma með mikla reynslu inn í stjórnina,“ skrifaði Parag Agrawal, forstjóri Twitter, í færslu á samfélagsmiðlinum. Musk svaraði Parag og sagðist hlakka til að vinna með honum og stjórninni að því að tryggja verulegar umbætur á samfélagsmiðlinum á næstu mánuðum.

Sjá einnig: Haraldi mislíkar enn Musk

Jack Dorsey, stofnandi Twitter, tísti að Musk „er innilega annt um heiminn okkar og hlutverk Twitter í honum“.

Fjárfesting Musk í Twitter vakti mikla athygli í gær og hlutabréfaverð félagsins hækkaði um 27%. Gengi Twitter hefur aldrei hækkað jafnmikið á einum degi frá skráningu árið 2013.