Elon Musk, forstjóri rafbílaframleiðandans fór um víðan völl í viðtali við fréttaskýringarþáttinn 60 mínútur um helgina. Sagði hann m.a. að nafn fyrirtækisins hefði verið frátekið þegar þeir fóru af stað og því hafi það verið keypt á 75 þúsund Bandaríkjadali. Ef nafnið hefði ekki fengist var planið að nota nafnið Faraday.

Í viðtalinu sagði hann jafnframt að ef hann setti fram tíst á samfélagsmiðlinum Twitter væri það hans eigin ákvörðun hvort fyrirtækið ætti að fara yfir það fyrirfram vegna hættu á því að brjóta samkomulag við SEC, fjármálaeftirlit Bandaríkjanna.

Í september bárust fréttir af því að Musk hefði náð samkomulagi við SEC um að stíga niður sem stjórnarformaður samhliða því að vera forstjóri fyrirtækisins og greiða 20 milljón dala sekt vegna villandi fullyrðinga á samfélagsmiðlum.

Í samkomulaginu sagði jafnframt að Tesla þyrfti að fara yfir allt sem Musk léti frá sér á samfélagsmiðlum og samþykkja þær fyrirfram ef innihéldu upplýsingar um fyrirtækið sem gætu varðað hluthafa.

Hafði Musk verið sakaður um villandi upplýsingar eftir að hann sagðist ætla að fara í hlutafjárútboð á félaginu þar sem sagði að hluturinn yrði boðinn á 420 dali, sem og hann sagðist hafa tryggt fjármögnun. Það reyndist ekki rétt og hann hætti við áætlanirnar nokkrum vikum síðar.

Reykti gras og talaði illa um hetju

Í viðtalinu viðurkenndi Musk að vera nokkuð hvatvís og að hann „vildi helst ekki fylgja einhverri uppskrift fyrir forstjóra.“

Musk var nokkuð í fréttum í sumar vegna undarlegra yfirlýsinga og aðgerða, þar með talið þegar hann talaði illa um bjargvætt barna sem festust í helli í Tælandi og reykti jónu í hlaðvarpi Joe Rogan. Sagði hann í viðtalinu að „ég vil vera skýr með það, ég virði ekki SEC,“ sagði Musk og vísaði í ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna um málfrelsi sér til stuðnings.

Annað sem kom fram í spjalli Lesley Stahl við Musk var að til greina kæmi hjá fyrirtækinu að kaupa aðra bílaverksmiðju af General Motors sem tilkynnt hefur um frekari niðurskurð.

Framleiðir í tjaldi

Til að ná áætlunum um framleiðslu á nýjustu gerð Tesla bílanna, Model 3 stækkaði félagið verksmiðjuna með því að setja upp tjald við hliðina á aðalsamsetningarverksmiðju félagsins í Fremont í Kaliforníu. Þar með hafi framleiðslan aukist um 50% sagði Musk.

Sagði hann að útgáfa bílsins sem áætlað er að kosti 35 þúsund dali verði líklega í boði á næstu fimm til sex mánuðum, en hann sagði jafnframt að hann væri ekki vanur að ná tímaáætlunum og því hefði verið skrýtið að búast við því síðast.