Íslenska menntatæknifyrirtækið Mussila hefur ráðið til sín fjóra nýja starfsmenn, þau Naiöru Alberdi, Steffi Meisl, Jóhann Svein Ingason og Söndru Rós Björnsdóttur.

Mussila, sem var stofnað árið 2015, hefur undanfarin ár haslað sér völl á ört stækkandi mennta-tæknimarkaði. Fyrirtækið framleiddi í upphafi og setti á markað stafræna tónlistarskólann Mussila og er nú einnig farið að selja beint til skóla víða um heim. Á dögunum tók Mussila við lestrar- og málörvunarappinu Orðagulli og hyggst á næstunni auka vöruframboðið sitt. Til dæmis kemur í næstu viku út karaoke-leikur með lögum Daða og Gagnamagnsins.

Naiara Alberdi hefur verið ráðin yfirmaður markaðsmála. Hún starfaði áður sem markaðsstjóri og yfirmaður markaðsefnis hjá Teatime Games. Þar áður starfaði Alberdi við smáforritið Quizup hjá Glu Mobile og Plain Vanilla.

Steffi Meisl mun gegna starfi samfélagsmiðlafulltrúi og verður tengiliður við skóla. Steffi starfaði áður sem yfirmaður samfélagsmiðla hjá Berlin Music Commission og Wonders of Iceland. Hún hefur einnig haft umsjón með ýmsum hlaðvörpum, m.a. um umhverfismál og ferðalög á Íslandi.

Sandra Rós Björnsdóttir var ráðinn inn sem grafískur teiknari. Sandra hefur unnið bæði að teiknimyndum og tölvuleikjum. Hún hefur gefið út teiknimyndasögur reglulega og undanfarin ár kennt börnum og unglingum teikningu.

Jóhann Sveinn Ingason mun starfa við forritun hjá Mussila. Hann er tölvunarfræðingur að mennt en er einnig með BA-gráðu í japönsku. Hann gegndi áður starfi tölvunarfræðings við Hljóðbókasafn Íslands.

„Þessar ráðningar munu hjálpa fyrirtækinu að stækka og festa sig í sessi á markaði. Við erum með töluvert mörg járn í eldinum og með þessa reynslubolta um borð erum við bjartsýn á framtíðina. Salan til skóla og menntakerfa lítur vel út og ég er viss um að með auknu vöruframboði getur Mussila orðið leiðandi fyrirtæki í menntatækni. Það eru spennandi tímar framundan,“ segir Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Mussila.

Mussila er þessa dagana með fjármögnun í gangi á vettvanginum Funderbeam . Fyrirtækið hyggst sækja allt að 600 þúsund evrur. Nú þegar níu dagar eru eftir af fjármögnunarlotunni hafa tilboð borist fyrir 506 þúsund evrur, eða um 84% af markmiðinu. Fram til þessa hefur fjármögnun Mussila aðallega komið frá Tækniþróunarsjóði og innlendum fjárfestum.

Starfsmenn Mussila
Starfsmenn Mussila
© Aðsend mynd (AÐSEND)