Ferðir starfsmanna lífeyrissjóða í boði banka og fjármálafyrirtækja heyra sögunni til. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs, segist ekki minnast þess fyrir utan boð um að funda með erlendum fyrirtækjum sem íslensk fjármálafyrirtæki þjónusta hér á landi. „Slíkir fundir eru þá skipulagðir af íslenskum fjármálafyrirtækjum. En starfsmenn Stafa ferðast og gista á kostnað Stafa. Í einstökum tilfellum kunna starfsmenn að hafa þegið kvöldverð svo dæmi sé tekið um kostnað sem íslensk eða erlend fjármálafyrirtæki leggja út fyrir,“ segir Ólafur og vísar til þess að samkvæmt siða- og samskiptareglum Stafa geti starfsmenn þegið slík boð séu þau hófleg ogí tengslum við fundi. Í þeim tilfellum sem starfsmenn Stafa hafa farið til útlanda hafa starfsmenn fjármálafyrirtækjanna verið með á fundinum og séð til þess að öll dagskrá haldist. Oftast ferðast starfsmenn Stafa einir en ferðast með öðrum fagfjárfestum sem eiga sama erindi á fundina.

Framkvæmdastjórar, forsvarsmenn og upplýsingafulltrúar fjórtán annarra lífeyrissjóða taka undir með Ólafi hjá Stöfum.

Ekki haldið utan um boðin
Viðskiptablaðið sendi fimmtán lífeyrissjóðum bréf og spurði hvort stjórnendur og fulltrúar lífeyrissjóðsins hefðu fengið boð frá fasteigna- eða fjármálafyrirtæki um ferð erlendis frá árinu 2009 til dagsins í dag. Þá var jafnframt spurt hvort boð hefðu verið þegið og þar fram eftir götunum. Svör frá lífeyrissjóðunum voru öll á þann veg að hvorki starfsmenn né stjórnarmenn hefðu þegið boð frá fasteignaeða fjármálafyrirtækjum frá árinu 2009. Lífeyrissjóðirnir hafi hins vegar greitt fyrir allar ferðir sem farnar voru á þeirra vegum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .