Hæstiréttur samþykkti á föstudag síðastliðinn áfrýjunarbeiðni ákæruvaldsins vegna dóms Landsréttar í mútu- og umboðssvikamáli tengdu innkaupum Isavia á aðgangsmiðum að bílastæðum félagsins.

Í málinu voru tveir menn ákærðir og taldi Landsréttur sannað að mennirnir hafi á árunum 2015 og 2016 haft samráð um að annar mannanna myndi í krafti stöðu sinnar sem stjórnandi hjá Isavia sjá til þess að félagið keypti aðgangsmiða fyrir bílastæðahlið félagsins af Boðtækni ehf., félags í eigu hins mannsins, á hærra verði en eðlilegt gæti talist og skipta með sér ávinningnum.

Í Landsrétti var sá sem starfaði hjá Isavia sakfelldur fyrir umboðssvik og eigandi Boðtækni fyrir hlutdeild í þeim, auk þess sem báðir voru sakfelldir fyrir peningaþvætti. Sá sem starfaði fyrir Isavia var jafnframt fundinn sekur um mútuþægni samkvæmt 2. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga en eigandi Boðtækni var sýknaður af því að bjóða mútur samkvæmt 1. mgr. sömu greinar og er það sú sýkna sem áfrýjunin lýtur að.

Sá fyrrnefndi var dæmdur til 15 mánuða fangelsisvistar, þar af voru 12 mánuðir skilorðsbundnir, en sá síðarnefni til 9 mánuða, allir skilorðsbundnir. Þá voru mennirnir dæmdir til að greiða Isavia óskipt ríflega 8 milljónir króna í skaðabætur og málskostnað, auk þess sem þeim var gert að greiða áfrýjunarkostnað.

Hafi verulega almenna þýðingu

Ákæruvaldið telur það hafa verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um túlkun á ofangreindum lagagrein þeirri er lýtur að mútugreiðslum í einkarekstri hvað eiganda Boðtækni varðar. Bendir ákæruvaldið á að í málinu reyni í fyrsta sinn á beitingu ákvæðisins og því sé mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um beitingu þess og ákvörðun viðurlaga. Þá telur ákæruvaldið sýknu mannsins af broti gegn ákæruefninu með dómi Landsréttar bersýnilega ranga að efni til. Ákærðu tóku ekki afstöðu til beiðni ákæruvaldsins um áfrýjun dómsins til Hæstaréttar.

Í ákvörðun sinni tekur Hæstiréttur undir sjónarmið ákæruvaldsins að úrlausn málsins kunni að hafa verulega almenna þýðingu og samþykkti því beiðnina, líkt og fyrr var minnst á.