Aukin alþjóðleg áhrif fyrirtækja frá stækkandi efnahagssvæðunum munu stuðla að aukinni spillingu í heiminum, segir í skýrslu samtakanna Transparency International (TI). Huguette Labelle, forstjóri TI, segir að fyrirtæki sem greiði mútur grafi undan ríkisstjórnum þróunarlanda og komi í veg fyrir að farsælt stjórnarform komist á og stuðli því að áframhaldandi fátækt.

Vísitala (BPI), sem mælir mútugreiðslur fyrirtækja 30 helstu útflutningsþjóða til annarra þjóða sýnir að fyrirtæki frá Indlandi, Kína og Rússlandi eru neðstar á listanum og eru því líklegastar til að greiða mútur.

Ríkustu þjóðirnar eru yfirleitt ofarlega á listanum, þrátt fyrir að fyrirtæki þaðan greiði oft mútur, sérstaklega til þróunarlanda. Svarendur könnunarinnar í fátækari þjóðum Afríku töldu til dæmis flestir að Frakkar og Ítalir greiddu mest af mútufé þangað. Framkvæmdarstjóri TI, David Nussbaum, segir það hræsni að fyrirtæki OECD ríkjanna greiði mútur út um allan heim á meðan ríkisstjórnir þeirra tala um skaðsemi mútugreiðsla. Nussbaum segir að því sé verulega ábótavant að alþjóðlegum mútulögum sé framfylgt.

Tilkynnt hefur verið um að stjórn hveitiútflutnings Ástralíu hafi greitt ráðamönnum í Írak mútur til að tryggja sér aðkomu í áætlun Sameinuðu þjóðanna um skipti á olíu fyrir matvæli. Þýsk-bandaríski bifreiðaframleiðandinn DaimlerChrysler sætir einnig rannsókn út af "óviðeigandi greiðslum" starfsmanna fyrirtækisins í Afríku, Asíu og Austur-Evrópu.

Í gær var tilkynnti Evrópusambandið að fyrirtæki frá Ítalíu, Þýskalandi og Frakklandi hafi verið sektuð vegna mútugreiðlsa í afríkuríkinu Lethoso. Ítalska fyrirtækið Impregilio var meðal þeirra fyrirtækja.

Nussbaum segir að margar ríkisstjórnir hafi tileinkað sér reglur sem miði að því að stöðva mútugreiðslur í kjölfar hvatningar frá Sameinuðu þjóðunum og OECD-ríkjunum, en að enn sé vandkvæðum háð að framfylgja þeim.

Athygli vekur að Bandaríkin eru aðeins í sjöunda sæti og að Tyrkland, sem hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu er það fjórða neðsta á listanum.