Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segir að samþykki Alþingi Icesave-ríkisábyrgðina með fyrirvörum, eins og nú kemur til álita, sé í raun verið að hafna samningunum.

„Lögfræðilega væri einfaldlega verið að hafna samningunum," segir hann.

Hann segir að það geti þó verið „mýkri" lending að hafna samningunum með þeim hætti - heldur en að fella Icesave-ríkisábyrgðina beint.

Með því að setja fyrirvara - segir hann til til frekari útskýringar - sé Alþingi hugsanlega að senda þau skilaboð að það geti fellt sig við hluta samninganna, til dæmis 95% en ekki hin 5%. Gagnaðilinn geti því boðist til þess að ræða frekar þessi fimm prósent.

Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður segir, þegar hann er spurður hvaða lagalega þýðingu fyrirvarar á Icesave-samninganna hefðu, að það fari eftir eðli þeirra. „Ef fyrirvarinn er sá að ríkið ætli að takmarka ábyrgðina frá því sem kemur fram í samningunum þá er búið að hafna þeim og bjóða upp á nýjan," útskýrir hann.

Það sé þó erfitt að meta þetta fyrirfram og án þess að sjá hvers konar fyrirvara um sé að ræða.

Fjárlaganefnd Alþingis hefur nú frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina til umfjöllunar og eins og áður kom fram kemur meðal annars til álita að setja fyrirvara við ábyrgðina.

Ekki virðist vera meirihluti fyrir því á Alþingi að samþykkja frumvarpið eins og það lítur út núna.