Peningastefnunefnd ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í gær við 4,25% í takt við væntingar. Hins vegar virðist sem fremur mildur tónn í yfirlýsingu peningastefnunefndar hafi komið markaðsaðilum á óvart.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkaði um 9 til 16 punkta í gær í kjölfar stýrivaxtaákvörðunar Seðlabankans. Bendir það til þess að á markaði sé talið ólíklegra en áður að stýrivextir hækki í bráð.

Seðlabankinn birti nýja þjóðhags- og verðbólguspá í febrúarhefti Peningamála í gær samhliða fyrstu vaxtaákvörðun ársins. Spáir bankinn áfram mjúkri lendingu hagkerfisins, þó hagkerfið færist hraðar í jafnvægi en áður var talið. Þá spáir bankinn að verðbólga verði að jafnaði við verðbólgumarkmið til ársloka 2020.

Með hliðsjón af hagvaxtar- og verðbólguspá Seðlabankans og verðbólguvæntingum má leiða líkur að því að peningastefnunefnd sé nokkuð sátt við núverandi aðhald peningastefnunnar. Í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar í desember var talað um að meira aðhald þyrfti en ella ef slakað yrði á aðhaldi ríkisfjármála á þessu ári og tónninn nokkuð harður. Yfirlýsing peningastefnunefndar í gær var hins vegar stuttorð, framvirka leiðsögnin hlutlaus og ekki var bent á nýja óvissu- eða áhættuþætti fyrir utan minna aðhald í opinberum fjármálum og niðurstöðu kjarasamninga, sem kallar áfram á peningalegt aðhald.

„Ef staðan og spáin eru skoðuð þá má segja að þetta séu ekki mikil tíðindi, en flest tíðindin eru góð,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á kynningarfundi í gær.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .