Framleiðsluvörur Myllunnar munu hækka um 8,1% þann 1. október næstkomandi. Fyrirtækið segir ástæðuna vera þá að heimsmarkaðsverð á hráefni hafi hækkað mikið að undanförnu auk þess sem hækkun á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur, sem tekur gildi um komandi mánaðamót, hefur áhrif á rekstrarkostnað Myllunnar.

Mest munar um þróun heimsmarkaðsverðs á korni sem hefur hækkað verð á hveiti til Myllunnar um 42,5%. Hækkunin er að mestu rakin til uppskerubrests sem orðið hefur vegna mikilla skógarelda í Rússlandi.

Um fjórðungur kornakra landsins hafa eyðilagst í þeim hamförum. Myllan leggur áherslu á að hækkanirnar séu tímabundnar og að fyrirtækið muni lækka verð á ný ef það lækkar á heimsmarkaði.