Myllan heldur uppteknum hætti og lækkar í dag verð á vörum sínum í takt við styrkingu krónunnar. Verð á innfluttum vörum lækkar um 3,21% en á framleiddum vörum um 1,45%. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Síðast breytti Myllan vöruverði vegna gengisbreytinga evru í mars árið 2013. Gengi evru hefur lækkað viðstöðulítið upp á síðkastið og er evran nú 2,3 prósentum ódýrari í krónum en um áramótin. Í kjölfar mikilla sveifla á gengi gjaldmiðla í kringum efnahagshrunið ákváðu stjórnendur Myllunnar að miða verðbreytingar hjá sér við 5% sveiflur á gengi evru gagnvart íslensku krónunni.

Síðasta verðbreyting Myllunnar vegna gengisþróunar var 28. mars árið 2013 en þá kostaði ein evra 159,22 krónur. Gengið hafði verið nokkuð stöðugt þar til rétt fyrir síðustu áramót. Á hádegi á fimmtudag í síðustu viku var múrinn rofinn og var evran þá komin niður í 150,7 krónur. Þetta jafngilti 5,2% lækkun frá í mars árið 2013.

„Okkar viðskiptavinir geta fylgst með verðbreytingunum og reiknað með verðbreytingum í takt við gengisþróun. Þetta getur varla verið gagnsærra,“ segir Björn Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Myllunni.