Kvikmyndin Hross í oss, hefur verið valin til þátttöku á San Sebastián International Film Festival. Myndin mun keppa í flokki nýrra leikstjóra. Verðlaunahafi í þeim flokki fær 50 þúsund evrur, eða tæpar átta milljónir króna, sem hann deilir svo með spænskum dreifingaraðila.

San Sebastián hátíðin fer fram í borginni Donostia-San Sebastían í Baskalandi á Spáni. Hún er ein af fjórtán svokallaðra „A“ hátíða og segja aðstandendur myndarinnar Hross í oss að val á hátíðina sé mikill heiður. Hátíðin verður haldin í 61. skipti frá 20. til 28. september.

Aðstandendur Hross í oss lýsa myndinni sem grimmri sveitarómantík um hið mennska í hrossinu og hrossið í manninum. Ást, kynlíf, hross og dauði fléttast saman með skelfilegum afleiðingum. Örlagasögur af fólki í sveit frá sjónarhól hestsins.

Benedikt Erlingsson leikstýrir myndinni og skrifar jafnframt handrit hennar. Þetta er fyrsta myndin í fullri lengd sem hann leikstýrir. Framleiðandi er Friðrik Þór Friðriksson. Meðframleiðandi er hinn þýski Christoph Thoke.

Í aðalhlutverkum eru Ingvar E. Sigurðsson, Charlotte Bøving, Kristbjörg Kjeld, Steinn Ármann Magnússon og Helgi Björnsson. Kvikmyndataka er í höndum Bergsteins Björgúlfssonar, Davíð Þór Jónsson semur tónlist myndarinnar og Davíð Alexander Corno klippir hana.

Hross í oss verður frumsýnd hér á landi þann 28. ágúst næstkomandi.

Smelltu hér að neðan til að sjá stiklu úr myndinni.