Hagstofan mun birta tölur um VLF á öðrum ársfjórðungi á fimmtudag. Tölur fyrir 1. ársfjórðung gefa til kynna að VLF hafi vaxið um 3,4% frá sama tíma í fyrra sem er mesti hagvöxtur milli ára frá 1. fjórðungi 2008. Greining Íslandsbanka telur líklegt að tölurnar fyrir annan ársfjórðung komi til með að sýna nokkuð myndarlegan vöxt milli ára. Í því samhengi megi benda á þróun einkaneyslunnar á fjórðungnum sem vegur ríflega helming landsframleiðslunnar, en tölur um kortaveltu sem liggja þegar fyrir gefa góða mynd af þróun hennar. Þannig bendir einföld aðhvarfsgreining til þess að einkaneyslan hafi aukist um 5% - 7% að raungildi á öðrum ársfjórðungi í ár frá sama tíma í fyrra. Ef rétt reynist er það hraðasta aukning einkaneyslu frá því á 1. fjórðungi ársins 2008. Verður því spennandi að sjá hvað tölur Hagstofunnar muni bera með sér.