*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 29. október 2017 09:02

Myndasíða: Fundur um séreignarsparnað

Vegna breytinga á séreignasparnaði geta einstaklingar notað viðbótarlífeyrissparnað í 10 ár til að safna skattfrjálst upp í íbúð.

Ritstjórn

Almenni lífeyrissjóðurinn og Viðskiptablaðið héldu opinn fund um séreignarsparnað á Icelandair Reykjavík Hótel Natura í síðustu viku.

Efnt var til fundarins vegna breytinga sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi séreignarsparnaðar. Nú geta einstaklingar, sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign, notað viðbótarlífeyrissparnað í 10 ár til að safna skattfrjálst upp í útborgun eða inn á höfuðstól fyrstu fasteignar.

Einnig hefur verið gerð sú breyting að launþegar á almennum vinnumarkaði geta greitt 2% af launum (hækkar í 3,5% þann 1. júlí 2018) í svokallaða tilgreinda séreign sem er laus til útborgunar á aldrinum 62 til 66 ára. Einstaklingar geta valið að ávaxta tilgreindu séreignina hjá öðrum en þeim lífeyrissjóði sem viðkomandi er skyldugur að greiða til og geta því valið á milli fjölda ávöxtunarleiða.

Á fundinum var farið yfir þá kosti sem í boði eru. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, flutti erindi sem og Helga Indriðadóttir, sjóðsstjóri hjá Almenna, og Sigríður Ómarsdóttir skrifstofustjóri. Á fundinum söng Sigríður Thorlacius nokkur lög við undirleik Guðmundar Arnar Guðmundssonar gítarleikara.

Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins, stýrði fundinum.

Helga Indriðadóttir, sjóðstjóri hjá Almenna lífeyrissjóðnum, fjallaði um mismunandi ávöxtunarleiðir.

Sigríður Ómarsdóttir, skrifstofustjóri hjá Almenna lífeyrissjóðnum, fjallaði um nýjungar í þjónustu við sjóðfélaga.

Sigríður Thorlacius söng nokkur lög fyrir gesti.

Upplýsingafundurinn var vel sóttur og að erindum loknum sköpuðust skemmtilegar umræður í salnum.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var á meðal fundargesta.