Haraldur Guðjónsson Thors fangaði stemninguna á leið sinni að gosstöðvunum í Geldingadölum á föstudaginn, viku eftir að gos hófst, og náði fallegum myndum af eldstöðvunum í ljósaskiptum.

Bílaröð á Suðurstrandarvegi að eldstöðvum
Bílaröð á Suðurstrandarvegi að eldstöðvum
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Löng bílaröð myndast gjarnan á Suðurstrandarvegi en þennan dag héldu á fjórða þúsund manns að gosstöðvunum.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Myndin sýnir brekkuna víðfrægu á gönguleiðinni. Hækkun brekkunnar nemur tæpum 140 metrum. Gott er að vera með göngustaf til að auðvelda yfirferð um brekkuna og hálkubrodda í pokanum, enda geta aðstæður breyst hratt og hefur hálkan reglulega strítt vegfarendum .

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Efst í brekkunni er kaðall til að auka á öryggi göngufólks. Mörgum dugir þó að styðjast við göngustafi í brekkunni og sleppa þannig við þær raðir sem gjarnan myndast við kaðalinn bæði á upp- og niðurleið.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Björgunarsveitir hafa staðið vaktina og gætt að öryggi vegfarenda.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Listaverk náttúrunnar. Síðast gaus á Reykjanesskaga fyrir um 800 árum síðan en síðasta gostímabil á skaganum varði í um 300 ár.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Stórkostlegt sjónarspil við eldstöðvarnar í ljósaskiptunum. Gosið virðist vera svokallað dyngjugos, en yngsta dyngjan á Reykjanesskaga, Stórabollahraun, er talin vera um 2.500 ára gömul.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Hér er engu líkara en einhvers konar kynjaverur séu á kreiki en hér er þó aðeins um gosþyrsta göngugarpa að ræða.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Hlíðar Fagradalsfjalls þjóna sem áhorfendapallar þessarar stórkostlegu sýningar. Þess má geta að Fagradalsfjall er hæsta fjall Reykjanesskaga og rís toppur þess 385 metra yfir sjávarmáli.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Einhverjir hafa lagt til að gígarnir verði nefndir Ræfill og Rola í umræðum um hugsanleg örnefni eldstöðvanna á samfélagsmiðlum. Fleirum hugnast þó að kenna eldstöðvarnar við landnámsmanninn Ísólf á Skála, en sögur segja að hann hafi verið dysjaður í Geldingadölum, hvar hann ku hafa haldið geldfé sínu aðskildu frá ám með lömb. Hafa örnefni á borð við „Í sólfsdyngja" og „Ísólfsskjöldur“ verið lögð til um þennan tignarlega legstein sem móðir náttúra reisir nú Ísólfi.