Hlutabréf bandaríska bílaframleiðandans Tesla snarlækkuðu í verði í síðustu viku í kjölfar myndbands sem birtist á netinu af einum af bílum fyrirtækisins í ljósum logum. Bílaframleiðandinn staðfesti að eldur kviknaði í kjölfar þess að ökumaðurinn keyrði á málmhlut sem olli tjóni á framhluta bílsins. Útfrá því kviknaði eldur í batteríi bílsins. Þetta kemur fram á vef Reuters .

Áður en slysið átti sér stað höfðu virði hlutabréfa Tesla sexfaldast. Eftir að myndbandið birtist lækkuðu hlutabréfin um 10,4% tvo daga í röð. Markaðsvirði Tesla lækkaði því um 2,4 milljarða dollara vegna þessa myndbands.

Fyrirtækið Northern Lights Energy hefur selt 20 eintök af lúxusbílnum Tesla Model S hér á landi. Fyrstu tveir bílarnir voru afhentir í vikunni en fleiri verða afhentir í þessum mánuði og í þeim næsta. Ódýrasti bílinn kostar frá 11,8 milljónum króna og upp í 13,8 milljónir.

Myndbandið fræga má sjá hér: