Þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa undanfarna daga haldið á fund Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra. Fundirnir eru undanfari ákvörðunar um hver verði skipaður næsti innanríkisráðherra.

Í því samhengi hafa Einar K. Guðfinnsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir verið nefnd og þau talin líklegust til að verða fyrir valinu. Einar segir í samtali við fréttastofu RÚV að hann sé ekki ákveðinn hvort hann muni sækjast eftir stöðunni. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Ragnheiður að hún sé tilbúin til að takast á við þá áskorun ef hún yrði beðin um að sinna starfinu. „Þá myndi ég líta á það sem mikla áskorun og traust af hálfu formanns flokksins," segir hún.

Aðspurð segir hún ráðherraskipan ekki hafa verið rædda sérstaklega á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokks sem fram fór í dag. Ragnheiður segir líkur á að skipan innanríkisráðherra verði tilkynnt á morgun eftir að Bjarni Benediktsson hefur fundað með öllum þingmönnum flokksins.