Agnar Tómas Möller, forstöðumaður skuldabréfa hjá Júpíter, telur eðlilegast að vaxtakjör fasteignalána séu fest við markaðsvexti sem endurspegli fjármögnunarkostnað bankanna, til dæmis veðlánavexti Seðlabankans. Slík breyting yrði klárlega til þess að bæta miðlun peningastefnunnar. Neytendasamtökin gáfu nýlega út það álit sitt að núverandi framkvæmd fasteignalána bankanna væri ólögmæt .

„Mér finnst óeðlilegt að þú getir breytt álagi á láni eftir á. Þú metur áhættuna af lántakanum þegar þú veitir lánið, og mér finnst í raun óeðlilegt að það álag sé þá ekki bara fast út lánstímann. Þegar fyrirtæki gefa út skuldabréf bera þau bara millibankavexti að viðbættu föstu álagi. Þar liggur þetta fyrir strax frá upphafi og ég sé ekki af hverju þetta ætti ekki að geta verið þannig fyrir heimilin líka,“ segir Agnar.

„Bankarnir væru bara með vaxtatöflu hverju sinni og fólk vissi þá nákvæmlega hverjir vextirnir yrðu miðað við þróun markaðsvaxta.“

Kallar á meiri ábyrgð
Ólíkt bönkunum hafa margir lífeyrissjóðir miðað sína breytilegu vexti við einfaldar reiknireglur. Birta lífeyrissjóður skar sig töluvert úr í samanburði vaxtakjara einmitt vegna þessa, þegar breytilegir óverðtryggðir vextir fóru í 2,1% – vel undir þeirri 3,2% verðbólgu sem nú mælist – í sumar. Vextirnir hafa síðustu ár verið bundnir við meginvexti Seðlabankans, sem nú standa í 1%, að viðbættu 1,1% álagi. Sjóðurinn ákvað nú um mánaðamótin að hætta að lána óverðtryggt.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir vissulega geta verið flókið að reka lánastofnun og finna rétt viðmið. Bankar hafi þó haft tilhneigingu til að verja sig fyrir markaðsáhættu, og sem dæmi gætu þeir hagað fjármögnun sinni þannig – en hún felst að stórum hluta í útgáfu sértryggðra skuldabréfa – að vaxtakjör hennar fylgi samskonar reiknireglu.

„Þetta líka kallar kannski á meiri ábyrgð í fjármálastjórnun í kerfinu öllu. Þannig skapast vonandi meiri stöðugleiki og fyrirsjáanleiki, okkur öllum til hagsbóta til lengri tíma litið. Sá slugsháttur vill oft loða við okkur að við viljum hafa frjálsar hendur og gera allt eftir eigin geðþótta. En við þurfum líka agann sem felst í regluverkinu. Það er kannski bara hollt fyrir okkur og kerfið allt, að fara nú einu sinni eftir skýrum reglum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .