Jón Ólafsson, sem fór fyrir nefnd um gerð siðareglna alþingismanna, segir augljóst að fyrirsætustörf umhverfisráðherra í þingsal stangist á við nokkrar þeirra. „Ráðherra getur ekki leyft sér að hjálpa vinum sínum með störfum sínum sem ráðherra,“ segir Jón, en hann er formaður Gegnsæis - samtaka gegn spillingu.

„Þarna er þingmaður og ráðherra að láta taka mynd af sér í þingsalnum til að hjálpa ákveðnum aðila.“ Jón segir að hingað til þegar slík mál hafi komið upp hérlendis hafi þingmenn og ráðherrar fengið léttvæg viðbrögð frá embættismönnum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Vísar hann þar m.a. í að skrifstofustjóri Alþingis, Helgi Bernódusson hafi ekki gert mikið úr myndatökunum umræddu sem fram fóru í sal Alþingis, þar sem Björt Ólafsdóttir sat fyrir í kjól frá tískufyrirtækinu Galvan. Jón segir að þegar slík mál komi hins vegar upp í nágrannalöndum okkar nægi þau til afsagnar ráðherra og þingmanna.

„Grundvallarspurningin er: Hvers á almenningur að vænta frá kjörnum fulltrúum?,“ spyr Jón. „Það er sama hvað ráðherra eða þingmaður gerir, fólk verður alltaf að hafa í huga að það sé ekki að hygla einhverjum sérstökum. Það verður að tryggja að enginn geti sakað það um að það starfi fyrir einhvern annan en almenning. Þetta er grundvallarprinsipp.“