Samninganefndir Bandalags háskólamanna (BHM) og ríkisins funda nú í húsakynnum ríkissáttasemjara. Fundurinn, sem hófst núna klukkan 10, er sá fyrsti í kjaradeilunni síðan á laugardaginn. Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, segist ekki vita hvort það sé eitthvað rofa til í viðræðunum. Það muni væntanlega koma í ljós í dag.

Spurður hvort BHM hugnist álíka hækkun og SA bauð Flóabandalaginu og verslunarmönnum svarar Páll: "Slík tala, rúmlega 30%, myndi vera eitthvað sem við myndum horfa vandlega á. Við erum aftur á móti líka að hugsa um uppbygginguna og strúkturinn á samningnum og að menntun verði metin til launa."

Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins funduði seinnipartinn í fyrradag en þeim fundi lauk án þess að niðurstaða fengist. Það þýddi að verkfall hjúkrunarfræðinga hófst í gær og er það þegar farið að hafa áhrif á starfsemi spítalanna þar sem sjúklingar hafa verið útskrifaðir fyrr en ella. Nýr fundur í kjaradeilunni hefur ekki verið boðaður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .