„Sú klisjukennda mynd, sem margir hafa af óperusöngvaranum, stórum og feitum, sem stendur kyrr á sviðinu, er eiginlega horfin,“ segir óperustjórinn Stefán Baldursson.

Viðskiptablaðið ræðir ítarlega við Stefán í síðasta tölublaði. Þar ræðir hann um uppsetningar á óperum frá ýmsum hliðum.

Hann segir óperuna ekki bara tónlist, heldur leikhús og kalla á æfingar sem slíkt. „Það er mikil vinna að baki hverri uppfærslu og að henni kemur ótrúlegur fjöldi fólks og þar af leiðandi er óperan eitt dýrasta listformið,“ segir hann og bendir á að þegar La Bohéme var sett upp í fyrra hafi 150 manns komið að uppfærslunni. Stórar sýningar í Eldborg í Hörpu kalli almennt á hátt á annað hundrað manns. Þar af telur hljómsveitin um sextíu manns, kórinn skipa 36 söngvarar, einsöngvarar geta verið á bilinu tíu til fimmtán og svo getur verið barnakór. Að því sögðu sé starfsemi Óperunnar atvinnuskapandi fyrir mjög stóran hóp listamanna.

Meiri kröfur til söngvara

„Undanfarin ár hafa kröfur til leikhæfileika óperusöngvara aukist, bæði innan óperuheimsins en ekki síður frá áhorfendum. Í óperunámi söngvara í dag er mjög víða áhersla á leiklistina líka. Það er hins vegar mjög einstaklingsbundið eftir söngvurum hversu vel þetta liggur fyrir þeim. Margir íslenskir söngvarar eru mjög góðir leikarar, þótt það liggi ekki eins vel fyrir þeim öllum,“ segir hann.