Á ársfundi Landsvirkjunar sem haldin var á þriðjudag á Hilton Reykjavík Nordica var blásið til opinnar umræðu um orkumál, en fyrirtækið hafði lagt áherslu á það í tilkynningum um fundinn að hann væri öllum opinn.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í sínu ávarpi að hlutur opinberra aðila í atvinnustarfsemi hefði aldrei verið hærri hér á landi heldur en einmitt nú.

„Hið opinbera er yfir og allt um kring á raforkumarkaði,“ sagði Bjarni en aðrir ræðumenn voru til að mynda Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sem ræddi um árið 2017 sem var metár í rekstrarafkomu, raforkusölu og framleiðslu.

Aðrir ræðumenn voru Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður á starfsmannasviði fyrirtækisins, sem ræddi um virkjun jafnréttisins, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri sem ræddi um áhrif aukinnar eftirspurnar eftir raforku og Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og þróunarsviðs, sem horfði til framtíðar.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sátu saman, en sá fyrrnefndi fór yfir góða stöðu fyrirtækisins í sínu ávarpi. Bjarni velti því hins vegar upp hvort hætta gæti falist í of miklu eignarhaldi ríkisins, ásamt öðrum afskiptum, á orkuframleiðslu í sínu ávarpi.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Selma Svavarsdóttir beið einnig tilbúin með hljóðnemann á sér eftir því að komast í pontu, en ávarp hennar var með yfirskriftinni: Að virkja jafnréttið.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Góð mæting var á ársfundinn sem að þessu sinni var haldinn í Hilton Reykjavík Nordica hótelinu við Suðurlandsbraut.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar ræddi um áhrif aukinnar eftirspurnar eftir raforku en síðasta ár var metár í bæði framleiðslu og sölu raforku hjá fyrirtækinu.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Sveinn I. Ólafsson framkvæmdastjóri Verkís og Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets létu sig ekki vanta á ársfundinn.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Vala Valþórsdóttir viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun var auðvitað viðstödd ásamt góðum hópi valinkunnra starfsmanna fyrirtækisins.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Meðal annarra starfsmanna Landsvirkjunar á ársfundinum voru þau Jóna Soffía Baldursdóttir forstöðumaður upplýsingasviðs og Haraldur Hallgrímsson forstöðumaður viðskiptaþróunar.