*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Innlent 3. desember 2019 19:01

Myndir: Fögnuðu aldarafmæli LSR

Forsætisráðherra velti upp hvort hægt hefði verið að koma lífeyrissjóðakerfinu á fót nú þegar allir eru í eigin bergmálshellum.

Ritstjórn
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi um samstöðuna í þjóðfélaginu sem leiddi til þess að lífeyrissjóðakerfinu var komið á.
Aðsend mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á aldarafmæli lífeyrissjóðsins LSR sem haldið var upp á á dötunum. Á afmælisfundinum var fjallað um mikilvægi samtryggingarsjóða, eins og þeirra sem Íslendingar eiga í lífeyrissjóðunum.

Beindi Katrín athygli fundargesta að þeim tímum sem við lifum í dag, þar sem allir búa í sínum heimi og fái upplýsingar úr eigin bergmálshelli. Velti Katrín því upp hvort erfiðara geti verið að ná breiðri samstöðu meðal fólks nú, en fyrir 100 árum. Hún sagði að það væri slæmt því samstaða sé forsenda stórra framfara, líkt og þeirra sem náðust með stofnun lífeyrissjóðakerfisins. 

 • Unnur Pétursdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Harpa Jónsdóttir

Harpa Jónsdóttir, sem tók við sem framkvæmdastjóri LSR í haust, stiklaði í ræðu sinni á stærstu áföngum í sögu sjóðsins. Sjóðurinn var upphaflega eftirlaunasjóður æðstu embættismanna landsins en árið 1944 var hann opnaður fyrir almennum ríkisstarfsmönnum. Í gegnum árin hafa ýmsir sjóðir runnið inn í LSR og hann stækkað. Í dag er LSR ekki aðeins elsti lífeyrissjóður landsins heldur kom fram í máli Hörpu að hann væri einnig sá stærsti með um 1.000 milljarða í eignum.

 • Unnur Pétursdóttir og Stefán Pétursson

 • Unnur Pétursdóttir og Harpa Jónsdóttir

 • Guðrún Þorleifsdóttir og Harpa Jónsdóttir

Texas ekki drifið áfram af vilja til að bjarga heiminum

Philip Ripman, sjóðsstjóri hjá Storebrand í Noregi, var einn fyrirlesaranna á fundinum. Hann sagði Storebrand vilja vera með skýra framtíðarsýn og áætlun til framtíðar. Meira væri fjárfest í fyrirtækjum sem hugsuðu um umhverfið og hefðu jákvæð áhrif.

„Fyrirtæki sem leysa vanda samfélagsins hafa orðið mjög verðmæt,“ sagði hann og nefndi að nokkrir starfsmenn Storebrand hefðu keypt kvóta af íslenska fyrirtækinu Kolviði. Sagði hann að fjárfestar sem haldið hafi hlutabréfum sínum í kolafyrirtækjum hafi á síðustu árum tapað stórt.

Ripman nefndi að hann spyrji oft fólk hvaða ríki Bandaríkjanna sé leiðandi í sjálfbærum fjárfestingum og þá nefni flestir Kaliforníu. Rétta svarið sé hins vegar Texas og það sé til marks um að fyrirtæki sem leggi áherslu á umhverfismál séu góð fjárfesting. Eða eins og einn vinur hans orðaði það; „Ef að Texas er að fjárfesta í því þá er það ekki vegna þess að þeir vilji bjarga heiminum.“

Stærsta breytingin felist í að við lifum í alþjóðlegu samhengi

 • Brynja Þorgeirsdóttir og Bergur Ebbi Benediktsson

Undir lok fundarins tóku Anna Björk Sigurðardóttir, sérfræðingur í lífeyrismálum hjá LSR, Bergur Ebbi Benediktsson rithöfundur, Gunnar Baldvinsson, höfundur bóka um fjármál einstaklinga, og Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, þátt í pallborði.

Jóna Þórey sagði að á meðal jafnaldra hennar væri frekar rætt um lífeyrissjóði í tengslum við húsnæðiskaup heldur en eftirlaunaárin. Fólk væri iðulega ekki visst um í hvaða lífeyrissjóð það væri að greiða. Jóna Þórey sagði að í laganámi sínu hefði verið fjallað um lög um lífeyri. Það fyrsta sem samnemendur hennar gerðu var að spyrja hvað lífeyrir væri og svo hvaða lífeyrissjóð það tilheyrði.

Bergur Ebbi vísaði í samstöðuna sem Katrínu Jakobsdóttur var tíðrætt um í sínu erindi. Hann sagði merkilegt að hugsa til þeirrar samstöðu sem ríkti í þjóðfélaginu fyrir 100 árum og varð til þess að lífeyrissjóðakerfið var skapað. Nú stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum þar sem samstaða geti verið á undanhaldi og nefndi Bergur Ebbi dæmi um að við hugsum meira um okkar þarfir og minna um samfélagið í heild.

„Það verður allt annar veruleiki næstu 100 ár, önnur vegferð en síðustu 100 ár.“ Áður vorum við að aðlaga sveit að borg en næstu áratugina muni breytingarnar tengjast því að fara frá því að búa í landi yfir að búa í heimi. „Alþjóðavæðingin sem hóf göngu sína fyrir 30 árum er að fara að kikka allverulega inn,“ sagði hann.

Bergur Ebbi sagði stærstu breytinguna felast í því að við lifum í alþjóðlegu samhengi. Sífellt fleiri Íslendingar mennti sig og starfi erlendis og þá verði rof í söfnun lífeyris og fólk glati ákveðnum réttindum. Að sama skapi sé stór hluti vinnuaflsins hér útlendingar. Núverandi kerfi virðist ekki gera ráð fyrir þessu.

Það ætti að vera hægt að borga í sjóð erlendis og síðar verði til stærri söfnunarsjóður. Hann sagði að það tæki marga áratugi að byggja upp slík kerfi með svo stórum sjóðum en það yrði að vera hluti af framtiðarsýn lífeyrissjóðanna. „Þetta ástand er komið til að vera, þar sem við förum um allan heim að sinna námi eða störfum.“

 • Benedikt Jóhannesson

 • Benedikt Jóhannesson og Gunnar Björnsson

 • Þór Egilsson, Stefán Halldórsson og Arnaldur Loftsson

 • Þorkell Sigurgeirsson og Harpa Jónsdóttir

 • Kolbrún Kolbeinsdóttir og Selma Filipusdóttir

 • Kjartan Hauksson og Viðar Helgason

 • Jón L. Árnason og Lýður Þorgeirsson

 • Gylfi Magnússon

 • Gunnar Björnsson og Þórey S. Þórðardóttir