*

föstudagur, 24. janúar 2020
Innlent 26. janúar 2019 17:02

Myndir: Húsnæðismarkaðurinn á sléttunni

Greiningardeild Arion baka sér fram á raunverðslækkun íbúða að því er greint var frá á fundi um nýja skýrslu bankans.

Ritstjórn
Annar kynna skýrslunnar, nýr liðsmaður í greiningardeild Arion banka, Halldór Kári Sigurðarson, ræddi um framboð og eftirspurn á húsnæðismarkaði og þær breytingar sem eru að verða á því.
Haraldur Guðjónsson

Góður hópur áhugasamra mætti í fundarsal Arion banka þegar kynnt var árleg skýrsla bankans um húsnæðismarkaðinn, sem ber yfirskriftina Húsnæðismarkaðurinn á sléttunni. Gunnar Bjarni Viðarsson og Halldór Kári Sigurðarson, sérfræðingar í greiningardeild bankans, fjölluðu um framboð, eftirspurn og fjármögnun húsnæðis en einnig var ný spá um þróun húsnæðisverðs kynnt. Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs, var kynnir á fundinum.

Meðal helstu niðurstaðna skýrslunnar er að aukið framboð og áframhaldandi væntingar um það virðist vera að tempra markaðinn. Jafnvel muni raunverð byrja að lækka strax á þessu ári með aukinni verðbólgu, og að laun muni hækka meira en húsnæðisverð á næstu árum.

Meðalstærð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur minnkað undanfarin þrjú ár og útlit fyrir að svo haldi áfram. Fólksfjölgun mun ekki verða jafnmikil og verið hefur svo unnið verður á uppsöfnuðum skorti. Hins vegar mun útlánaaukning síðustu ára minnka og lánakjör versna, sem aftur mun lækka hámarksveðhlutfall íbúðarlána, og að kjör viðbótarlána munu versna.

Ólafur Heiðar Helgason og Harpa Ingólfsdóttir hagfræðingar hjá Íbúðalánasjóði létu sig ekki vanta, enda húsnæðismálin mikið í umræðunni þessi misserin.

Framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Arion banka, Iða Brá Benediktsdóttir fylgdist athugul með erindum starfsmanna bankans.

Seinni kynnir skýrslunnar, Gunnar Bjarni Viðarsson ræddi um fjármögnun húsnæðis.

Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hjá Stefni og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, hefur greinilega áhuga á húsnæðismálunum.

Starfsmenn greiningardeildar bankans hlustuðu auðvitað vel á framsögu samstarfsmanna sinna, þar á meðal þau Erna Björg Sverrisdóttir og Elvar Ingi Möller.

Ekki vantaði heldur athyglina hjá þeim Stefáni Brodda Guðjónssyni forstöðumanni greiningardeildarinnar hjá Arion banka og Lýði Þór Þorgeirssyni, framkvæmdastjóra fjárfestingarsviðs bankans.

Fleiri góðir gestir hlýddu á erindin af athygli enda niðurstaðan m.a. sú að húsnæðismarkaður höfuðborgarsvæðisins sé að temprast.

Gleðin skein úr andlitum fundarmanna í móttökurýminu í anddyri bankans eftir kynningarfund skýrslunnar, og greinilegt að áheyrendum þótti niðurstöðurnar góðar.

Bjarki A. Brynjarsson, Stefán Broddi Guðjónsson og fleiri góðir gestir ræddu síðan málin ígrundað og af yfirvegun.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hefur löngum haft mikinn áhuga á húsnæðismálunum og tjáð sig um lausnir á húsnæðiseklunni í borginni. Hann var meðal þeirra sem ræddu málin eftir fundinn.