*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 11. febrúar 2020 07:30

Myndir: Mætast í miðju Atlantshafsins

Icelandair hélt á dögunum ferðakaupstefnu þar sem mættu þátttakendur frá 24 löndum og áfangastöðum félagsins.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri snúa bökum saman.
Eva Björk Ægisdóttir

Ferðakaupstefnan Icelandair Mid-Atlantic, sem haldin var í Laugardalshöll á þriðjudag, er einn stærsti viðburðurinn í íslenskri ferðaþjónustu, en þar voru um 650 þátttakendur frá 24 löndum beggja vegna Atlantshafsins, auk 100 íslenskra ferðaþjónustuaðila. Tóku fulltrúar frá öllum áfangastöðum Icelandair þátt í kaupstefnunni, en auk þeirra voru opinber ferðamálaráð ýmissa þeirra svæða og borga sem flugfélagið flýgur til í Norður Ameríku og Evrópu þátttakendur.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsóttu kaupstefnuna, en á móti þeim tóku þau Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, og Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá sama félagi, og kynntu fyrir þeim allt það helsta sem var í boði.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tekur á móti Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og býður hann velkominn á kaupstefnuna.

Hópurinn stillti sér upp fyrir myndatöku en á myndinni sjást meðal annars Jóhannes Þór Skúlason og Bjarnheiður Hallsdóttir frá SAF, Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála, Birna Ósk Einarsdóttir framkvæmdastjóri hjá Icelandair og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi.

Gestirnir fengu að smakka margar góðar kræsingar frá þátttakendum á kaupstefnunni.

Hallgrímur Kristinsson framkvæmdastjóri Raufarhólshellis kynnti gestunum fyrir töfrum staðarins.

Glatt var á hjalla hjá hópnum þegar hann gekk um á milli básanna á kaupstefnunni sem var þétt setin.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair er greinilega nokkuð hissa á því sem Addý Ólafsdóttir sem einnig vinnur hjá félaginu er að sýna honum stollt.

Gestirnir stilltu sér upp með fulltrúum á kaupstefnunni sem sumir hverjir voru komnir langt að til að kynna það sem er í boði á áfangastöðum Icelandair.

Mistærir drykkir voru jafnframt á boðstólnum fyrir gesti og þátttakendur á kaupstefnunni, en þeir komu frá 24 löndum við Atlantshafið.

Ýmsir áhugaverðir ferðakostir voru kynntir á kaupstefnunni, bæði hvað væri í boði hér á landi, hjá okkar næsta nágranna í vestri, Grænlandi, og mun lengra í burtu.