Eftir samfellda mánaðarlega útgáfu í 26 ár hefur síðasta blað Mynda mánaðarins, eða Bíó myndir mánaðarins eins og það hefur heitið síðustu ár, komið út.

Tilkynntu aðstandendur um að útgáfunni hafi nú verið hætt á facebook síðu útgáfunnar, en síðasta tímaritið kom út fyrir janúar mánuð 2020. Prýddi þriðja myndin af Bad Boys með Will Smith og Martin Lawrence forsíðuna en helmingur blaðsins var tileinkaður myndum í kvikmyndahúsum, en á baksíðunni var Dagfinnur Dýralæknir með Robert Downey Jr.

Seinni helmingur blaðsins hefur verið tileinkaður svokölluðum VOD kerfum, eða myndbandaleigukerfum fjarskipta- og fjölmiðlafélaganna, en á gullaldartíma blaðsins var sá hluti tileinkaður myndunum sem komu út á kvikmyndaspólum myndbandaleiganna sálugu.

Þekkja margir hve þægilegt var þegar farið var í „vídjó“- leigurnar eins og þær voru jafnan kallaðar að fletta upp í blaðinu og skoða hvað var nýkomið út eða var á leiðinni. En allt rennur sitt skeið en eins og sést á vef útgáfunnar eru fjölmargir sem munu sakna blaðsins.