*

laugardagur, 15. maí 2021
Innlent 29. apríl 2021 19:15

Myndir: Sky Lagoon opnar á morgun

Baðlónið Sky Lagoon opnar á morgun. Áætlaður framkvæmdakostnaður er um 5 milljarðar króna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Baðlónið Sky Lagoon á Kársnesi opnar dyr sínar fyrir gestum á morgun. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá opnuninni segir að mikið sé lagt í baðlónið og vandað til verka varðandi hönnun og upplifun fyrir gesti. Baðlónið muni skapa 110 ný störf og áætlaður framkvæmdakostnaður sé um 5 milljarðar króna. Nú þegar hefur verið opnað fyrir bókanir í lónið á skylagoon.is.

„Staðnum er ætlað að upphefja íslenska baðmenningu, byggingarsögu og náttúru. Gestir Sky Lagoon ganga inn í sér­ís­lenskan ævin­týra­heim innan um  einstaka náttúru með magnað út­sýni yfir hafið, skerin og nesin, verandi samt á miðju höfuð­borgar­svæðinu. 75 metra langur óendanleikakantur gefur þá tilfinningu að himinn og haf renni saman þegar horft er úr lóninu,“ segir í tilkynningunni.

Gamli íslenski byggingarstíllinn skíni í gegn þar sem meðal annars sé notuð klömbruhleðsla sem hélt lífi og hita í Íslendingum um ár og aldir en þetta sé í fyrsta skipti sem þessi forna byggingatækni er notuð í nútímabygginu.

„Kjarninn í upplifun gesta er 7 skrefa spa ferðalag sem er innifalið fyrir alla gesti. Heilunarmáttur heita og kalda vatnsins, blautgufa, þurrgufa og ferska sjávarloftið stuðla að vellíðan og efla líkama og sál.  Í lóninu er þurrgufa með stærsta glerrúðu á Íslandi með mögnuðu útsýni út á hafið,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

„Hefðirnar í kringum baðmenningu Íslendinga eru grafnar djúpt í þjóðarsálina. Þessar hefðir eru kjarninn í upplifunni sem við bjóðum í Sky Lagoon,“ segir Dagný Pétursdóttir framkvæmdastjóri Sky Lagoon. „Gestir lónsins munu því tengja hug, líkama og sál í faðmi náttúru, kletta, óendanleika hafsins ásamt yndislegu 7 skrefa spa ferðalagi.“

Að verkefninu stendur fyrirtækið Nature Resort ehf. og kanadíska fyrirtækið Pursuit mun sjá um rekstur baðlónsins. Pursuit þekkir vel til ferðaþjónustu á Íslandi í gegnum rekstur sinn á Fly Over Iceland.

„Vellíðan og upplifun af náttúrunni er enn mikilvægari í framhaldi af þessu erfiða tímabili sem er senn á enda,“  segir David Barry, forstjóri Pursuit. „Þörfin á að slaka á, aftengja sig frá amstri dagsins og koma endurnýjuð til baka er gríðarlega mikilvægt fyrir líkamla og sál. Við hlökkum til að bjóða gestum Sky Lagoon upp á einstaka upplifun og vellíðan hér í lóninu.“

Hér að neðan má sjá myndir af nýja lóninu:

Stikkorð: Lagoon Sky