*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 30. janúar 2019 18:02

Myndir: Ferðaþjónusta á Norðurlandi

Uppbygging ferðamannastaða á Norðurlandi hefur gefið góða raun en innviðir standa frekari uppbyggingu fyrir þrifum.

Ritstjórn
Katrín Amni Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri FVH, Már Másson, framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa lónsins, Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kalda og Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF.
Aðsend mynd

Uppbygging ferðamannastaða á Norðurlandi hefur gefið góða raun en innviðir standa frekari uppbyggingu fyrir þrifum. Þetta kom fram á hádegisverðarfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga (FVH) í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) í Hofi á Akureyri, sem fram fór á dögunum.

Á fundinum héldu erindi Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri bruggsmiðjunnar Kalda og einn stofnenda Bjórbaðanna á Ársskógssandi, og Már Másson, framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa lónsins, en Bláa lónið er fjárfestir í jarðböðunum við Mývatn og sjóböðunum á Húsavík. Agnes og Már fóru yfir sögu fyrirtækjanna og reynslu þeirra af því að byggja upp áfangastaði á Norðurlandi.

Líflegar umræður sköpuðust í kjölfar erindanna. Þar kom meðal annars fram sú skoðun frummælenda að samgönguinnviðir, og þá sérstaklega þegar kemur að flugi, stæðu frekari uppbyggingu áfangastaða á Norðurlandi fyrir þrifum. Már hvatti stjórnvöld til að líta til aðkomu einkaaðila að innviðauppbyggingu, til að mynda að uppbyggingu alþjóðaflugvallar á Akureyri, og tók Agnes undir það. FVH hefur haldið árlegan fund um ferðaþjónustu og uppbyggingu hennar á Akureyri undanfarin ár. Fundurinn var hluti af hádegisverðarfundaröð félagsins sem fer fram yfir veturinn. Fundirnir eru öllum opnir.

Stjórn og framkvæmdastjóri FVH tóku góða skapið með sér norður. 

Már Másson, framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa lónsins.

Fín mæting var á fundinn og fylgdust fundargestir vel með gangi mála.

Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri bruggsmiðjunar Kalda og Már Másson, framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa lónsins.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, ávarpar fundinn.

Stikkorð: SAF FVH