Trukkabílstjórar og eigendur stórra vöru-, krana- dráttar- og steypubíla hafa staðið fyrir heljarmikilli sýningu við Smáralind í Kópavogi um helgina. Þar hefur mátt sjá glæsilega nýlega bíla sem og vörubíla frá fyrrihluta síðustu aldar. Greinilegt var þó á tali mann að efnahagsástandið er farið að höggva skarð í stétt trukkabílstjóra.

Þorvaldur Stefánsson bílstjóri hjá Malbikunarstöðinni á Höfða, eða Valli eins og hann er kallaður, segist ekki þurfa að kvarta yfir verkefnaskorti eins og margir aðrir. Hann er á ársgamalli Scaniu með „stellara á lofti” eins og trukkakarlarnir segja.

Hvernig er bíllinn að standa sig?

„Hann kemur mjög vel út þessi bíll. Allur á lofti og mjög þægilegur í alla staði. Ég er mikið í keyrslu með malbik fyrir utan bæinn. Við höfum verið á Selfossi, Grundartanga og erum að fara á Hvammstanga eftir helgi. Þetta er því búið að vera allt í lagi hjá okkur. Ég er í malbikinu á sumrin og snjóruðningi á veturna.”

Þorvaldur segist þó vita af bágu ástandi hjá mörgum. Sem dæmi hafi einn trukkaeigandinn ætlað að mæta með sinn bíl á sýninguna á laugardagsmorguninn, en varða að tilkynna forföll. Kaupleigufyrirtækið hafi nefnilega tekið af honum bílinn.

Hann segir kaupleigurnar hafa farið mjög illa með marga trukkaeigendur eins og greint hafi verið frá í fjölmiðlum. Þær hafi tekið fjölda bíla vegna vanefnda á greiðslum, en þá gjarnan metið þá mjög mikið niður þannig að eigendur sátu eftir með mikinn skuldabagga á bakinu. Í ofanálag hafi kaupleigurnar svo ástandsmetið bílana og oft á tíðum ákveðið gríðarlega háan viðgerðarkostnað sem fyrri eigendum var gert að greiða. Hann sagði fróðlegt að vita hvernig færi með svona mál og hugsanlegan kröfurétt þessara manna ef í ljós kæmi að myndkörfulánin hafi alla tíð verið ólögleg.