*

sunnudagur, 29. mars 2020
Innlent 22. febrúar 2020 18:03

Myndir: Viðskiptaþing 2020

Í ár fjallaði þingið um það hvernig viðskiptalífið ber hitann og þungann af því að knýja fram nýsköpun og framfarir í umhverfismálum.

Ritstjórn
Katrín Olga Jóhannesdóttir hélt kveðjuræðu sína, en hún steig á þinginu úr formannsstóli eftir fjögurra ára formennsku hjá ráðinu.
Aðsend mynd

Viðskiptaþing Viðskiptaráðs fór fram á dögunum en í þetta skiptið var þingið haldið í Hörpu. Í ár fjallaði þingið um það hvernig viðskiptalífið ber hitann og þungann af því að knýja fram nýsköpun og framfarir í umhverfismálum, m.a. í gegnum grænar fjárfestingar og endurhugsun á allri virðiskeðjunni.

Yfirskrift þingsins var: Á grænu ljósi, sem er, líkt og Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, sagði frá í viðtali við sérblað Viðskiptablaðsins um Viðskiptaþing 2020:

„Skírskotun í það að okkur er ekki til setunnar boðið, þetta er leiðin áfram - við þurfum að hyggja að áframhaldandi vexti og framþróun í landinu sem mun grundvallast á grænum fjárfestingum og nýsköpun.

Loftslagsváin er áskorun til okkar sem samfélags og við þurfum að standa saman um að skila okkar framlagi til betra ástands í heiminum. Ísland stendur að mörgu leyti vel að vígi en betur má ef duga skal - við erum enn sú þjóð sem mengar hvað mest á hvern einstakling í Evrópu. Til að leggjast í raunverulegar aðgerðir þarf fjármagn - og hver eru betur í stakk búin til að virkja það og fara skynsamlega með það, en einmitt fjárfestar, fjármálageirinn og atvinnulífið allt."

Framsögufólk þingsins var Roelfien Kuijpers, yfirmaður ábyrgra fjárfestinga og stefnumótandi tengsla hjá DWS Group á Írlandi, í Skandinavíu og Bretlandi, Klemens Hjartar, meðeigandi hjá McKinsey & Company, Sasja Beslik, forstöðumaður sjálfbærra fjárfestinga hjá Bank J. Safra Sarasin í Sviss, Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fossa markaða í Stokkhólmi, og Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum. Auk þess fluttu nöfnurnar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Katrín Olga Jóhannesdóttir, fráfarandi formaður Viðskiptaráðs, erindi. Fyrrnefnd Ásta S. Fjeldsted var fundarstjóri.

Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson lék ljúfa tóna fyrir gesti Viðskiptaþings.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skilaði góðu dagsverki sem fundarstjóri þingsins.

Á stjórnarfundi Viðskiptaráðs, sem fór fram um morguninn fyrir Viðskiptaþing, var greint frá því að Ari Fenger, forstjóri og einn af eigendum 1912 ehf., tæki við sem formaður Viðskiptaráðs af Katrínu Olgu Jóhannesdóttur.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, ásamt eiginmanni sínum Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, fylgdust vel með gangi mála.

Andri Guðmundsson fór á kostum í erindi sínu um græn skuldabréf þótt hann hafi því miður látið græna gítarinn ósnertann.

Fundargestir lögðu grannt við hlustir yfir erindi Klemens Hjartar, meðeiganda hjá McKinsey & Company

Roelfien Kuijpers hélt áhugavert erindi, en hún var í haust valin ein af 25 áhrifamestu konum heims í fjármálum af American Banker.

Sasja Beslik fræddi fundargesti m.a. um sjálfbærar fjárfestingar.

Stikkorð: Viðskiptaþing