Íslenskir myndlistarmenn hafa fengið stuðning frá dönskum kollegum sínum, en hinir síðarnefndu hafa sent frá sér tilkynningu þar sem fyrirhugaðri lækkun fjárframlaga til Myndlistarsjóðs í fjárlögum ársins 2015 er mótmælt. Eru þingmenn hvattir til þess að berjast gegn lækkuninni.

Undir tilkynninguna skrifar Bjarne Werner Sörensen en hann er formaður Samtaka danskra myndlistarmanna. Hann mótmælir því að aðeins sé gert ráð fyrir 25 milljóna króna framlagi til Myndlistarsjóðs, þar sem það sé 20 milljónum minna en veitt var til sjóðsins samkvæmt fjárlögum ársins 2013.

Bjarne segir stöðu íslenskrar myndlistar viðkvæma og hún sé að dragast aftur úr öðrum menningar- og sköpunargreinum. Þrátt fyrir það hafi engar áætlanir komið fram af hálfu stjórnvalda til þess að styrkja greinina. Er því skorað á þingmenn að tvöfalda fjárframlög til Myndlistarsjóðs í fjárlögum ársins 2015, svo þau nemi 50 milljónum króna í stað 25 milljóna.