Garðar Már Birgisson, viðskiptastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Þulu, var viðmælandi VIðskiptablaðsins í síðustu viku.

Garðar Már segir fyrirtækið, eins og öll önnur fyrirtæki, stefna á heilbrigðan vöxt. „Okkur lýst þannig á að það séu mjög spennandi tækifæri hér heima. Ekki það að íslenski markaðurinn sé það stór þannig lagað en við myndum horfa afskaplega stolt um öxl á dagsverkið ef við gætum séð fram á að við hefðum lagt okkar að mörkum og stuðlað að auknu lyfjaöryggi og betri nýtingu fjármuna. Við yrðum afskaplega glöð ef við gætum horft á það. Síðan horfum við til þess að selja birgðastjórnunar- og lyfjafyrirmælalausnirnar utan Íslands og væntingar standa til að geta aukið söluna og veltuna án þess að stækka fyrirtækið sjálft á Íslandi of hratt. Arðsemi félagsins hefur verið mjög heilbrigð frá upphafi og við erum ekki í fjárþörf þannig að við getum vonandi stækkað næstu misserin án þess að fá utanaðkomandi fjármagn ef við erum heppin með samstarfsaðila erlendis.“

Mikill skilningur á mikilvægi lausnarinnar

„Hvort sem við erum hérlendis eða erlendis þá skilja lyfjafræðingar strax hvað við erum að bjóða. Það er mjög gaman að kynna þetta fyrir lyfjafræðingum því þeir spyrja oft hvers vegna enginn hafi boðið þessa lausn áður. Menn sjá að þetta eru engin geimvísindi heldur bara skynsamlega lausnir sem virka vel fyrir þessa grein, en hafa ekki verið útfærðar áður með þessum hætti. Svo þarf eins og alltaf fjármagn til að fjárfesta í þessum lausnum. Þótt þú sért með mjög góða vöru getur verið erfitt að selja hana. Jafnvel þótt þú getir sýnt fram á mikla hagræðingu er það ekki ávísun á að það sé auðvelt að selja hana. Þar sem er naumt skammtað og lítið til skiptanna þá hefur fólk stundum ekki orku til að fjárfesta eða innleiða lausnir til hagræðingar. Við þurfum að finna leiðir til að takast á við það,“ segir Garðar Már.

Hingað til hefur verið takmarkað framboð á lausnum til að ávísa lyfjum fyrir inniliggjandi sjúklinga hérlendis. „Ég hef trú á að þegar hentugar lausnir verða í boði fyrir alvöru þá muni stofnanir taka mjög hratt við sér. Það væri stór ákvörðun að gera það ekki.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .