Sigríður Ingvarsdóttir, héraðsdómari og formaður rannsóknarnefndar Alþingis, hefur beðist lausnar frá störfum sem formaður nefndarinnar.

Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins fyrir stundu.

Alþingi skipaði rannsóknarnefndina sem hefur það hlutverk að rannsaka aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Nefndin var skipuð í júní 2011 og var upphaflega gert að skila skýrslu um málið sumarið 2012.

Sigríður fékk ársleyfi frá störfum sínum sem héraðsdómari til að sinna þessari vinnu. Í kvöldfréttum RÚV kom fram að það leyfi hefði ekki fengist framlengt en þá ríkti einnig óeining og ágreiningur innan nefndarinnar um starfsemi hennar.

Aðrir nefndarmenn eru Tinna Finnbogadóttir hagfræðingur og Bjarni Frímann Karlsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. í samtali við RÚV sagði Sigríður að þau Tinna og Bjarni Frímann hefðu myndað meirihluta gegn henni þegar upp kom ágreiningur um starfsemi nefndarinnar.