Ákvörðunin um að gera Skjá einn að áskriftarstöð var tekin fyrr í haust.

„Þetta var alls ekki auðveld ákvörðun en við sáum okkur tilneydd til að fara þessa leið,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjás miðla, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hún segir að ákvörðunin hafi reynst öllum þungbær, ekki síst starfsfólki stöðvarinnar.

„Við gátum ekki gert ekki neitt enda hefði rekstur stöðvarinnar stefnt í óefni að öllu óbreyttu. En það er miður að geta ekki boðið stöðina ókeypis lengur, í staðinn verður hún næstum því ókeypis.“

Að sögn Sigríðar Margrétar gengur sala áskrifta vel; í vikunni voru um 14 þúsund manns búnir að gerast áskrifendur. Þá segist Sigríður Margrét gera ráð fyrir að áskrifendum fjölgi töluvert næstu vikur.

„Um leið og fjöldi áskrifenda fer að verða verulegur, t.a.m. um 40 þúsund, stefnum við að því að lækka áskriftarverðið,“ segir Sigríður Margrét.

„Markmið okkar er og verður að vera eins ódýr og mögulegt er. Helst myndum við kjósa að hafa stöðina ókeypis áfram.“

____________________________

Nánar er fjallað um málið stuttri úttekt um Skjá einn í Viðskiptablaðinu í dag. Skjár einn er 10 ára á þessu ári og í vikunni var sjónvarpsstöðinni, sem alltaf hefur verið ókeypis, breytt í áskriftastöð.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .