Reykjanesbær óskar eftir viðræðum við Heilbrigðisráðuneytið um að sveitarfélagið taki yfir starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS).

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir að með þessu vilji bæjaryfirvöld tryggja örugga og góða þjónustu fyrir íbúana.

„Við myndum væntanlega stofna sjálfseignarstofnun til að standa að þessu og þá vonandi með Landspítalanum og öðrum fagaðilum. Slík stofnun haldi utan um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja eins og hún er í dag. Þá verði samrekstur um skurðstofurnar, en við viljum svo ræða um frekari tilhögun við þá sem kæmu að þessu borði. Framundan eru þá væntanlega samningar við ráðuneytið um framhaldið og að sjá hverjir hafa áhuga á slíku samstarfi. Við höfum sýnt þessu áhuga um nokkurn tíma og því hefur verið ágætlega tekið af núverandi heilbrigðisráðherra,” segir Árni í samtali við Viðskiptablaðið.

Árni segir að ekki sé þó hugmyndin að gera úr þessu einhverskonar einkarekstur. Hins vegar sé augljóst að ferliverkin tengist einkaaðilum og sjálfsagt að halda því áfram.

Heilbrigðisráðuneytið hafi þegar samþykkt að funda í byrjun febrúar til þess að ræða hugmyndir um gerð þjónustusamnings við sveitarfélagið um rekstur heilbrigðisþjónustu. Segir hann mikilvægan þátt í þessu vera rekstur skurðstofa.

„Það er mikilvægt að þær verði nýttar hér í þágu íbúa um leið og við opnum fyrir ferliverk líkt og gert var hjá læknum á St. Jósepsspítala. Við teljum að með því ætti að vera hægt að taka upp gott samstarf m.a. við lækna á St. Jósepsspítala og tryggjum um leið afnot Heilbrigðisstofnunar að skurðstofunum. Fyrst og fremst viljum við þó tryggja að það verði skýrari sýn og meiri stöðugleiki í framkvæmd. Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og miklar sveiflur í stefnu hennar. Það hefur því verð erfitt að framfylgja stefnu hverju sinni þar sem hún hefur varað stutt í hvert sinn. Með okkar hugmyndum viljum við tryggja meiri stöðugleika.”