Gjaldmiðlar
Gjaldmiðlar
© Getty Images (Getty)
Menn hafa svo lengi spáð því að komið sé að ögurstundu Evrusvæðisins, að sumir yppta öxlum nú, spyrja hvort þetta reddist ekki einhvernveginn eða hvort þetta sé ekki aðeins nútímaútgáfa sögunnar um piltinn, sem æpti „Úlfur, úlfur!“

Þá er rétt að minnast þess að punkturinn við þá sögu er einmitt sá, að það kemur alltaf úlfur.

Fjármálaráðherrar Evrusvæðisins hittast á aukafundi í Brussel í dag til þess að fjalla um hvort Grikkjum verði komið til bjargar öðru sinni, en auðvitað er meira undir. Skuldakreppan ógnar nú bæði Spáni og Ítalíu og þegar svo stór hagkerfi eiga í vanda blasir við að Evrusvæðið allt á í vanda.

Tvær lausnir á borðinu

Segja má að aðeins séu tvær lausnir mögulegar fyrir Evrusvæðið, eigi það lífi að halda. Annars vegar að menn dæli auknu fjármagni í björgunarsjóðinn mikla (jafnvel og hann hefur nú reynst) og hins vegar að breyta Evrusvæðinu í skuldabandalag, þar sem gefin verða út sameiginleg skuldabréf í nafni myntsvæðisins alls.

Þetta er hreint ekki vandalaust, ómögulegt segja sumir. Fyrri leiðin er erfið, einfaldlega af því að peningarnir liggja ekki á lausu, því ef björgunarsjóðurinn á að geta haldið aftur af hamförunum þarf að minnsta kosti að tvöfalda hann, helst þrefalda. Seinni leiðin er jafnvel enn torfærari, aðallega af pólitískum ástæðum, en hún gengur þvert á grundvallarlög og sáttmála ESB og Evrusvæðisins. Báðar leiðirnar eru algerlega háðar vilja Þjóðverja eða örlæti þeirra öllu heldur. Kurrinn úr því horni gefur ekki tilefni til bjartsýni á það.

Gallaðar lausnir

Þessar leiðir eru báðar illilega gallaðar, því þær belgja út þann freistnivanda, sem er ástæða þess óefnis, sem í er komið. Með þeim væri hinum ýmsu ríkjum Evrópu í raun gefið grænt ljós á frekari lántökur í skjóli þýska hagkerfisins, sem nær örugglega er ávísun á enn tryllingslegri skuldakreppu í framtíðinni og henni ekki ýkja fjarlægri.

Nema auðvitað Evrópusambandið taki við ríkisfjármálum aðildarríkjanna, sem vafalaust heillar margan kommisarinn í Brussel, en nýtur takmarkaðri vinsælda í aðildarríkjunum. Þá væri enda aðildin að ESB gerbreytt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.