Eigandi fyrirtækis í Bandaríkjunum brást verr við en menn eiga að venjast af fólki í stjórnunarstöðum þegar tveir af starfsmönnum hans báðu um launahækkun: Hann myrti þá með köldu blóði. Maðurinn hefur verið ákærður fyrir verknaðinn.

Hinn ákærði heitir Rolandas Milinavicius og er af lithásku bergi brotinn rétt eins og fórnarlömbin tvö. Rekstur fyrirtækisins, sem er staðsett í nágrenni Atlanta í Georgíuríki, gekk út á að flytja bandaríska bifreiðar til Litháen; hinsvegar gekk hann illa og Milinavicius var í fjárhagsvandræðum. Fram kemur í frétt The Atlanta Journal um málið að starfsmennirnir tveir voru á lágum launum og höfðu gert kröfu um hærri laun um tíma. Að sögn Russell Popham varðstjóra voru starfsmennirnir frekar óánægðir með laun sín. Svo virðist að Milinavicius hafi fengið sig fullsaddan á launakröfum starfsmannanna og hreinlega gengið af göflunum sl. fimmtudag. Popham varðstjóri segir að Milinavicius hafi verið undir miklu álagi en hafi því miður tekið það út með ofbeldi.

Í kjölfar þess að líkin fundust, margskotin, við höfuðstöðvar fyrirtækisins hófst mikil leit að morðingjanum. Þeirri leit lauk eftir tvo daga en þá gaf Milinavicius sig fram við lögreglu og viðurkenndi að hafa framið morðin.