Fjölmiðlaveldið News Corp., sem meðal annars á Wall Street Journal, hefur sett samskiptasíðuna Myspace í söluferli. Búist er við að um fimm aðilar muni skila inn tilboðum fyrir lok vikunnar. Fjárfestingasjóðir hafa á síðustu vikum skoðað bækur félagsins og er talið að félagið sé um 100 milljóna dala virði.

Ljóst er að fjárfesting News Corp. í Myspace, sem eitt sinn var ein vinsælasta samskiptasíða heims, mun skila miklu tapi. News Corp. greiddi um 580 milljónir dala fyrir Myspace á árinu 2005. Þá voru margir áhugsamir um að kaupa félagið. Síðan þá hefur samskiptasíðan tapað mikilli markaðshlutdeild. Sama má segja um síðuna Friendster sem naut einnig vinsælda á árunum 2005 til 2007. Notendum hefur stöðugt fækkað á síðustu árum á sama tíma og notendum Facebook hefur fjölgað hratt.