*

sunnudagur, 16. febrúar 2020
Innlent 29. september 2018 12:31

Mýta að sjávarútvegurinn sé óstöðug grein

Deildarforseti hagfræðideildar HÍ segir sjálfstæðar sveiflur sjávarútvegsins mjög verðmætar fyrir íslenskt efnahagslíf.

Júlíus Þór Halldórsson
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði og deildarforseti hagfræðideildar HÍ, flutti erindi á ráðstefnunni Lítill fiskur í stórri tjörn, sem haldin var í Hörpu á vegum SFS síðastliðinn miðvikudag.
Haraldur Guðjónsson

Meðal fyrirlesara á ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í Hörpu á miðvikudagsmorgun var Ásgeir Jónsson, dósent og deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands. Ásgeir fór yfir stöðu og framtíð sjávarútvegs á Íslandi.

Þótt sjávarútvegur sé enn, og fyrirséð sé að hann verði áfram, undirstöðugrein í íslensku atvinnulífi, er ljóst að hlutfallslegt vægi hans hefur farið minnkandi síðustu áratugi. „Það verður ákveðin breyting við upphaf 21. aldar: landsframleiðsla og vöxtur útflutningstekna skiljast að,“ sagði Ásgeir. „Það er ekki víst að hagvöxtur á Íslandi verði rekinn áfram af sjávarútvegi með sama hætti og var á 20. öld. Vægi sjávarútvegs í útflutningi hefur verið að minnka stöðugt, og hlutfall veiða og vinnslu af landsframleiðslu hefur verið að minnka og hefur helmingast frá 1997. Það virðist því vera að vægi greinarinnar í hagkerfinu sé að minnka.“

Sjálfstæðar sveiflur sjávarútvegsins stuðla að stöðugleika
Þetta þýði að sökum þess hve ótengd áhætta í sjávarútvegi er öðrum áhættuþáttum íslensks hagkerfis, geti hann stuðlað að stöðugleika. Í síðustu tveimur niðursveiflum, hinni svokölluðu „dotcom“ bólu annars vegar og fjármálabólunni hins vegar, hafi sjávarútvegurinn veitt mikilvægt mótvægi. „Ég held að það sé að einhverju leyti mýta að sjávarútvegurinn sé óstöðug grein.“

Svo fremi sem vægi greinarinnar sé ekki of mikið, geti verið mjög verðmætt fyrir efnahagslífið að hafa grein sem sveiflast með öðrum hætti en aðrar greinar. „Um leið og þessi grein fer niður fyrir ákveðið vægi þá er hún að minnka áhættu. Það má segja að það sé í raun alveg frábært að hafa grein sem er með áhættuþætti sem eru ótengdir að einhverju leyti hinu alþjóðlega fjármálakerfi, og ótengdir mörgum öðrum þáttum sem við erum að vinna með. Þannig að einhverjir teldu það mjög mikinn kost að þú getir verið með áhættuþætti sem standa utan við þessa helstu áhættuþætti sem við erum að fylgjast með,“ sagði Ásgeir.

Mistök að horfa á fjölda starfa
Ásgeir sagði lífskjör þjóða ekki velta á þeim fjölda starfa sem tækist að skapa. Það væri jákvæð þróun að samhliða því sem ófaglærðum störfum hafi fækkað í sjávarútvegi hafi störfum fyrir menntað fólk farið fjölgandi. „Það liggur fyrir að það gæti ekki verið byggð úti á landi ef það væru ekki samkeppnishæf störf, ef það væru engar greinar sem gætu borgað almennileg laun. Þannig að það eru mistök að hugsa alltaf um fjölda starfa. Við þurfum að hugsa um að þetta séu góð störf. Ég get ekki séð fyrir mér að ef við hefðum ekki séð þessa uppbyggingu og hagræðingu í sjávarútvegi, að nokkur hefði viljað búa úti á landi í einhverjum aumingjaskap, sem hefði verið hinn möguleikinn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.