Undirritaður hefur verið samstarfssamningur Skíðasambands Íslands, N1 hf. og Dagnýjar Lindu Kristjánsdóttur, skíðakonu, sem felur í sér að N1 verður bakhjarl Dagnýjar Lindu og einn af aðalstyrktaraðilum Skíðasambandsins næstu þrjú árin.

Í fréttatilkynningu vegna samningsins segir að Dagný Linda Kristjánsdóttir hafi til fjölda ára verið í fremstu röð skíðakvenna hér á landi. Hún náði prýðilegum árangri á síðustu Ólympíuleikum og hefur smám saman verið að vinna sig upp heimslistann í sínum sterkustu greinum, sem eru risasvig og brun. Sem stendur er hún í 89. sæti á heimslistanum í bruni og 74. sæti í tvíkeppni – svigi og risasvigi.

Dagný Linda hefur æft stíft frá því í lok ágúst og stefnir að því að keppa á sínu fyrsta heimsbikarmóti í vetur í hraðagreinunum svokölluðu, risasvigi og bruni, í Aspen í Colorado í Bandaríkjunum 7. og 8. desember nk. Dagný Linda tók þátt í tveimur FIS-mótum í risasvigi í Hemsedal í Noregi sl. þriðjudag og miðvikudag. Fyrri daginn lenti hún í þriðja sæti og seinni daginn stóð hún uppi sem sigurvegari.