N1 hagnaðist um 1.860 milljónir króna á síðasta ári og er það 12% meiri hagnaður en árið á undan. Sala félagsins minnkaði um 19%, en útsöluverð bensíns og annarra olíuvara minnkaði mikið á síðasta ári.

Þrátt fyrir þetta jókst framlegð félagsins af vörusölu um 6% á síðasta ári og nam 10,2 milljörðum króna. EBITDA hjá N1 jókst um 13% milli ára og nam 3.011 milljónum króna í fyrra.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, segir að fyrirtækið finni vel fyrir auknum ferðamannastraumi. Umsvifin í hagkerfinu séu að aukast og félagið finni fyrir því. „Við sjáum umferð vetrarmánaðanna vera komna upp fyrir þá umferð sem við vorum að sjá á sumarmánuðum 2010-2011,“ segir Eggert. Stöðvar félagsins úti á landi séu mjög vel staðsettar með tilliti til ferðamanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .