*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Innlent 3. október 2017 09:45

N1 gengur frá kaupum á Festi

Þar með mun N1 eignast Krónuna, ELKO, Kjarval og fleiri verslana.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Búið er að skrifa undir kaupsamning vegna kaupa N1 hf. á öllu hlutafé í Festi hf. Kaupsamningurinn byggir á viljayfirlýsingu sem N1 hf. og SF V slhf. skrifuðu undir þann 9. júní síðastliðinn um helstu skilmála viðskiptanna og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á Festi hf. Þetta kemur fram í tilkynningu N1 til Kauphallar Íslands.

Eftir að tilkynnt var um samkomulagið í morgun hafa hlutabréf í N1 hækkað um 5,9% í 58 milljón króna viðskiptum.

Festi rekur 27 verslanir undir merkjum Krónunnar, ELKO, Nóatún, Kjarval og Kr, en félagið á einnig og rekur Bakkann vöruhótel. Festi á 18 fasteignir sem eru annað hvort í leigu til verslana félagsins eða til þriðja aðila og er heildarstærð fasteignanna um 71.500 fermetrar. Heildarvelta Festi var rúmir 39 milljarðar króna á rekstrarárinu sem lauk 28. febrúar 2017.

„Það er okkur sönn ánægja að samningum um kaup N1 á Festi hafi lokið í dag með undirritun kaupsamnings. Með kaupunum verður til stærra og öflugra félag með getu til að þjónusta viðskiptavinum sínum enn betur um land allt með samþættingu í rekstri fyrirtækjanna og góðum staðsetningum," segir Eggert Kristófersson, forstjóri N1 í tilkynningu.

Kaupverð ræðst af afkomu Festis

Í kaupsamningnum er heildarvirði Festi 37,9 milljarðar króna en endanlegt kaupverð hlutafjár mun ráðast af skuldastöðu félagsins við lok yfirstandandi fjárhagsárs 28. febrúar 2018.

Endanlegt kaupverð byggist meðal annars á því rekstrarniðurstöðu á yfirstandandi rekstarári. „Gera áætlanir yfirstandandi rekstrarárs ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta ("EBITDA") verði um 3.340 milljónir króna og eru 2.125 milljónir króna vegna rekstrarfélaga Festi en 1.215 milljónir króna vegna fasteignastarfsemi þess. Heildarvirði félagsins getur tekið breytingum vegna afkomu rekstrarfélaga Festi. Reynist EBITDA rekstrarfélaganna fyrir rekstrarárið sem lýkur 28. febrúar 2018 vera hærri en 2.125 milljónir króna skal kaupverð hækka en þó aldrei meira en 1 milljarð króna, þ.e.a.s. verði EBITDA 2.250 milljónir króna eða hærri. Reynist hins vegar EBITDA rekstrarfélaganna vera lægri en 2.050 milljónir króna skal kaupverðið lækka en þó aldrei meira en um 1 milljarð króna, þ.e.a.s.  verði EBITDA 1.925 milljónir króna eða lægri,“ að því er kemur fram í tilkynningu.

Stjórnendur N1 spá því að EBITDA félagsins verði á bilinu 3.500 til 3.600 milljónir króna á árinu 2017 að undanskildum kostnaði við kaup á Festi og er því áætluð EBITDA sameinaðs félags á yfirstandandi rekstrarári án kostnaðar N1 við kaup á Festi á bilinu 6.840 til 6.940 milljónir króna en ekki hefur verið tekið tillit til samlegðar í framangreindum tölum. Áætluð samlegðaráhrif af sameiningu N1 og Festi eru á bilinu 500 til 600 m.kr.

Kaupverð hlutafjár verður greitt annars vegar með 76.086.957 hlutum í N1 á genginu 115, eða sem nemur 8.750 milljónum króna og hins vegar með nýrri lántöku. Sölubann er á helming þeirra hluta til 31.12.2018 en seljanda er þó heimilt að framselja bréfin með þeim réttindum til endanlegs eigenda. Komi til viðbótargreiðslu vegna betri afkomu Festi hf. mun sú greiðsla vera í formi hluta í N1 á genginu 115 en þeir hlutir munu jafnframt falla undir framangreint sölubann.

Viðskiptin eru meðal annars háð skilyrðum um að hluthafafundir beggja aðila samþykki kaupin og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi viðskiptin eftir er gert ráð fyrir að þeim ljúki á 2. ársfjórðungi 2018.

Stikkorð: krónan kjarval n1 elko festi